Miriam Petra Ómarsdóttir Awad og Rannís bæði tilnefnd til norrænna inngildingarverðlauna
Miriam Petra, sérfræðingur hjá Rannís, er tilnefnd í flokki brautryðjanda sem hafa stuðlað að fjölbreytileika, jafnrétti, inngildingu og réttinum að tilheyra í sínum samfélögum. Rannís er tilnefnt í flokki fyrirtækja og stofnana sem fjölbreyttur vinnustaður þar sem allar raddir fá að heyrast, starfsfólk hefur jöfn tækifæri, dafnar og er metið að verðleikum.
Miriam Petra og Rannís unnu kosningu í sömu flokkum um fulltrúa Íslands til norrænu verðlaunanna. Sigurvegarar hvers lands úr þeirri umferð keppast um norræna titilinn. Kosning um sigurvegara til verðlaunanna er opin almenningi og stendur til og með 3. september næstkomandi. Tilkynnt verður um sigurvegara þann 30. september í Osló.
Miriam Petra starfar sem sérfræðingur á mennta- og menningarsviði Rannís. Hún er inngildingarfulltrúi Landskrifstofu Erasmus+ og hefur bæði innan sem utan vinnu stuðlað að aukinni inngildingu, jafnrétti, fjölbreytni og vitundarvakningu um fordóma og menningarlæsi í íslensku samfélagi.
Hin norrænu inngildingarverðlaun ( e.Blaze Inclusion Awards ) eru veitt af frumkvæði Diversify, norskra samtaka sem vinna að því að efla fjölbreytni og inngildingu á vinnumarkaði um allan heim, og HerSpace, samfélags í Osló, sem veitir öllum þeim sem skilgreina sig sem konur öruggt umhverfi þar sem þær upplifa virðingu, áheyrn og valdeflingu til þess að vaxa í samfélags- og efnahagslegu lífi sem og í sínu persónulega lífi.
Diversify samtökin vinna með fyrirtækjum og stofnunum að auknum árangri með því að stuðla að breyttri mannlegri hegðun sem leiðir til aukinnar framleiðni, teymisvinnu, forystu og betri vinnumenningar. Þá vinna samtökin einnig að því að draga úr samfélagslegum ójöfnuði í gegnum frumkvöðlastarf, faglega þróun og rannsóknir.
Tilnefningarferlið hófst í janúar á þessu ári þegar kallað var eftir tilnefningum frá almenningi í hverju landi fyrir sig í alls sex flokkum. Í kjölfarið fór fram kosning fyrir hvert land. Sigurvegarar þeirrar kosningar voru tilkynntir í júlí og urðu þau sjálfkrafa fulltrúar síns lands til norrænu verðlaunanna.
Rannís óskar Miriam til hamingju með viðurkenninguna og óskar henni velgengni, sem verðugur fulltrúi Íslands í sínum flokki fyrir norrænu inngildingarverðlaunin.
Þá þakkar Rannís öllum þeim sem tilnefndu og hafa kosið stofnunina til verðlaunanna.
Sem fyrr segir þá stendur kosning um verðlaunin til og með 3. september og öllum gefst kost á því að greiða atkvæði.
Smellið á hlekkinn fyrir neðan til að lesa um allar tilnefningarnar til norrænu inngildingarverðlaunanna.