Nýsköpun, lýðræði og tungumál í brennidepli við verðlaunaafhendingu Erasmus+
Fulltrúar skóla- og menntayfirvalda komu saman á Nauthóli í Reykjavík þegar Rannís og Landskrifstofa Erasmus+ veittu Evrópsku nýsköpunarverðlaunin í kennslu og eTwinning gæðaviðurkenningar. Menntaskólinn á Tröllaskaga og Dósaverksmiðjan hlutu evrópsku verðlaunin í kennslu og tungumálum og Stapaskóli hlaut viðurkenningu fyrir eTwinning verkefni ársins 2025.
Á viðburðinum voru íslenskum skólum og kennurum sem hafa sýnt framúrskarandi árangur í nýsköpun, lýðræðislegu skólastarfi og tungumálakennslu fagnað. Afhent voru Evrópsku nýsköpunarverðlaunin í kennslu (European Innovative Teaching Award – EITA) í tveimur flokkum:
-
fyrir framúrskarandi skólastarf,
-
og fyrir nýsköpun í tungumálakennslu.
Menntaskólinn á Tröllaskaga hlaut verðlaunin í flokki skólastarfs fyrir verkefnið The Sustainable Development Goals in All Aspects of School Life – A Democratic Society in Practice, sem dregur fram hvernig lýðræðisleg vinnubrögð og markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun geta verið hluti af daglegu skólastarfi.
Dósaverksmiðjan – Tungumálaskólinn ehf. hlaut verðlaunin í flokki tungumálakennslu fyrir verkefnið Læsi er lykill að lýðræði – Menntun án aðgreiningar, sem sýnir hvernig tungumálakennsla og læsi geta verið lykill að virkri þátttöku og jöfnum tækifærum í samfélaginu.
Bæði verðlaunin voru afhent af mennta- og barnamálaráðherra, Guðmundi Inga Kristinssyni, ásamt fulltrúa frá Rannís, en ráðherra flutti jafnframt ávarp á viðburðinum.
Stapaskóli hlaut viðurkenningu fyrir eTwinning verkefni ársins 2025 á Íslandi fyrir verkefnið Ink of Unity – Celebrating our True Colors. Verkefnið var unnið í samstarfi við skóla víða um Evrópu og sneri að því að efla skapandi tjáningu, samvinnu og gagnkvæma virðingu meðal nemenda með sameiginlegum listrænum verkefnum. Ink of Unity fangar kjarnann í eTwinning – að efla alþjóðavitund, fjölmenningu og samskiptahæfni ungs fólks og í þessu tilviki er þetta gert í gegnum list og tungumál.
Auk þess hlutu kennarar frá Stapaskóla, Selásskóla, Ingunnarskóla og Stóru-Vogaskóla gæðaviðurkenningar eTwinning fyrir vel unnin verkefni sem sýna fram á fagmennsku, frumkvæði og árangursríka notkun á eTwinning til alþjóðlegs samstarfs og skapandi náms.
Ágúst Hjörtur Ingþórsson, forstöðumaður Rannís, afhenti eTwinning viðurkenningarnar og verðlaunin, ásamt verkefnastjóra eTwinning á Íslandi.
Verðlaunaafhendingin sýndi glöggt þann sköpunarkraft, fagmennsku og áhuga á nýjungum sem einkenna íslenskt skólastarf. Með þessum viðurkenningum er varpað ljósi á verkefni sem geta orðið öðrum innblástur innanlands sem erlendis og lagt grunn að frekari þróun og nýsköpun í menntakerfinu.