Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands 2023

30.1.2023

Axel Pálsson, Tómas Frostason og Tómas Orri Pétursson hljóta Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands 2023 fyrir verkefnið Vélræn endurhæfing í heimahúsi með sýndarveruleika.

  • NFI2023-Vinningshafar

Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands voru afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag.

Axel Pálsson, Tómas Frostason og Tómas Orri Pétursson nemar í verkfræði og tölvunarfræði í Háskólanum í Reykjavík hlutu verðlaunin fyrir verkefnið Vélræn endurhæfing í heimahúsi með sýndarveruleika. Leiðbeinandi var Pétur Már Halldórsson hjá Nox medical.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin.

Mynd: Handhafar Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands, Axel Pálsson, Tómas Frostason og Tómas Orri Pétursson ásamt forseta Íslands og Pétri Má Halldórssyni leiðbeinanda verkefnisins.

Í verkefninu „Vélræn endurhæfing í heimahúsi með sýndarveruleika“ var hönnuð og smíðuð frumgerð að tæki til aðstoðar við endurhæfingu á skertri skynjun í höndum vegna heilablóðfalls. Auk tækisins var hannað snjallforrit sem gegnir margþættu hlutverki. Það stýrir tækinu, er viðmót sem mætir sjúklingnum, ásamt því að vera samskiptamiðill milli sjúklinganna og sjúkra- og iðjuþjálfa sem stýra endurhæfingunni.

Einstaklingar sem fá heilablóðfall þurfa oft að kljást við margskonar fötlun í kjölfarið. Ein birtingarmynd slíkrar fötlunar er skert skynjun í útlimum. Árangursríkasta aðferðin til að endurheimta fyrri getu er að hefja endurhæfingu sem fyrst. Vegna mikils álags á heilbrigðiskerfið hér á landi getur verið skortur á aðgengi og löng bið sjúklinga eftir iðju- og sjúkraþjálfun getur valdið því að einhverjir sitja uppi með varanlega fötlun sem hefði mátt afstýra með tímabærri meðhöndlun og endurhæfingu.

Hér er kynnt til sögunnar ný aðferð til endurhæfingar á sjálfvirkan, vélrænan og tölvustýrðan máta. Þessi nýja aðferð og tækni býður upp á þann möguleika að stórbæta aðgengi að endurhæfingu, ásamt því að minnka álag á heilbrigðiskerfið. Með innleiðingu aðferðinnar myndi heimsóknum til iðjuþjálfa fækka og auðveldara væri að ná til mun fleiri sjúklinga sem þurfa á endurhæfingu að halda. Þannig gæti þessi tækni haft í för með sér verulegan sparnað og hagræðingu innan heilbrigðiskerfisins á sama tíma og þjónusta við sjúklinga og árangur meðferðar myndi stórbatna. Einnig mun þessi nýjung auðvelda eftirfylgni eftir útskrift ásamt því að auka tíðni þjálfunar og þannig hækka líkur á því að einstaklingar sem verða fyrir slíku áfalli eigi möguleika á að hefja endurhæfingu tafarlaust og þar af leiðandi auka líkur á fullum bata.

Fimm önnur verkefni fengu sérstaka viðurkenningu:

Pix.i-2023-72

Jöklabreytingar og sjávarstaða umhverfis Ísland
Verkefnið var unnið af Berglindi Pétursdóttur, nema við HÍ. Leiðbeinandi var Guðfinna Th Aðalgeirsdóttir prófessor á verkfræði- og náttúruvísindasviði HÍ.

Pix.i-2023-83

Sea Saver
Verkefnið var unnið af Atla Erni Friðmarssyni, Óla Sveini Bernharðssyni, Unnari Bæring Sigurðssyni og Lara De Stefano nemum í Háskólanum í Reykjavík. Leiðbeinandi var Ásta Karen Ágústsdóttir.

Pix.i-2023-70

Digital Symptom Tracker for Kid's Periodic Fever
Verkefnið var þverfaglegt, og var það unnið af nemunum Árna Steinari Þorsteinssyni og Þorsteini Inga Stefánssyni Rafnar í tölvunarfræðideild HR/HA. Leiðbeinandi þeirra var Anna Sigríður Islind, dósent í tölvunarfræðideild HR. Samstarf var við Högskolan Väst í Svíþjóð.

Pix.i-2023-79

Myndræn skráning búsetuminja og lýðvirkjun
Verkefnið var unnið af Sigríði Hlíðkvist G. Kröyer og Kristínu Emblu Guðjónsdóttur, nemum í landfræði við Háskóla Íslands. Leiðbeinendur voru Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri, og Rannveig Þórhallsdóttir, fornleifafræðingur hjá Sagnabrunni og Rannsóknasetrum HÍ.

Pix.i-2023-76

Leikskólalóðir á norðurslóðum
Verkefnið var unnið af Karen Lind Árnadóttur sem útskrifaðist úr grunnnámi í landslagsarkitektúr frá Landbúnaðarháskóla Íslands vorið 2022. Verkefnið var unnið í samstarfi við Teiknistofu Norðurlands og voru umsjónaraðilar verkefnisins Anna Kristín Guðmundsdóttir og Arnar Birgir Ólafsson, landslagsarkitektar FÍLA.

NFI2023-AllirMynd: Fulltrúar allra tilnefndra verkefna ásamt forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, Lilju Rannveigu Sigurgerisdóttur, formanni stjórnar Nýsköpunarsjóðs námsmanna og David Erik Mollberg, fulltrúa nemenda í stjórn Nýsköpunarsjóðs námsmanna.

Verðlaunin í ár
Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands eru veitt árlega þeim námsmönnum sem hafa unnið framúrskarandi starf við úrlausn verkefnis sem styrkt var af Nýsköpunarsjóði námsmanna sumarið áður. Verðlaunin voru fyrst veitt 1996 og eru því nú veitt í tuttugasta og sjöunda sinn.

Verðlaunin í ár er ljósmyndabókin Hetjur Norðurslóða eftir Ljósmyndarann Ragnar Axelsson









Þetta vefsvæði byggir á Eplica