Óskað eftir tilnefningum til Nýsköpunarverðlauna Íslands 2025
Nýsköpunarverðlaun Íslands eru veitt fyrirtæki sem þykir hafa skarað fram úr í þróun nýrrar vöru eða þjónustu, sem byggð er á rannsóknar- og nýsköpunarstarfi og náð hefur árangri á markaði.
Opnað hefur verið fyrir tilnefningar til Nýsköpunarverðlauna Íslands fyrir árið 2025. Verðlaunin eru veitt fyrirtæki sem þykir hafa skarað fram úr í þróun nýrrar vöru eða þjónustu, sem byggð er á rannsóknar- og nýsköpunarstarfi og sem náð hefur eftirtektarverðum árangri á markaði.
Tilgangur verðlaunanna er að vekja athygli á þeim mikilvægu tengslum sem eru á milli rannsókna og þekkingaröflunar og aukinnar verðmætasköpunar í atvinnulífinu.
Öll geta sent inn tilnefningu með því að fylla út skráningarformið hér á síðunni. Tilgreina þarf nafn fyrirtækis og rökstyðja í stuttu máli hvers vegna viðkomandi telji það eiga skilið að hljóta verðlaunin. Eftir að tilnefningartímabili lýkur mun dómnefnd verðlaunanna meta allar tilnefningar og kalla eftir frekari upplýsingum frá tilnefndum fyrirtækjum eftir því sem við á. Í dómnefnd sitja fulltrúar frá aðstandendum verðlaunanna: Rannís, Hugaverkastofunni, Íslandsstofu og Nýsköpunarsjóðnum Kríu ásamt fulltrúum verðlaunahafa síðustu þriggja ára.
Greint verður frá því hvaða fyrirtæki hlýtur Nýsköpunarverðlaun Íslands á Nýsköpunarþingi sem haldið verður 30. október næstkomandi.
Við val á Nýsköpunarfyrirtæki ársins er litið til þess hvort um sé að ræða nýtt sprotafyrirtæki, hvort það sé byggt á nýskapandi tækni og hugmynd og sé kröfuhart á þekkingu. Þá er lagt mat á virðisauka afurða og hvort fyrirtækið hafi náð árangri á markaði. Metið er hvort líkur séu á að fyrirtækið haldi velli og hvort stjórnun nýsköpunar sé til eftirbreytni. Að lokum er metið hvort fyrirtækið sé hvatning fyrir aðra að feta sömu slóð.
Yfirlit yfir fyrri verðlaunahafa