Fjármagni að upphæð 35 milljónum króna veitt til reksturs Alþjóðlegu norður­skauts­vísinda­nefndar­innar til næstu 5 ára

16.2.2016

Ríkisstjórn Íslands ákvað á fundi sínum í morgun, að tillögu forsætis­ráðherra, að veita fjármagni til reksturs Alþjóðlegu norður­skauts­vísinda­nefndar­innar til næstu 5 ára.

Samþykkt var að veita 35 milljónum króna til verkefnisins árlega, sem jafngildir 175 milljónum króna fyrir allt tímabilið (2017-2021). Gert er ráð fyrir að skrifstofan verði staðsett á Akureyri.

Markmið Alþjóðlegu norðurskauts­vísinda­nefndar­innar - IASC (International Arctic Science Committee) er að stuðla að samstarfi um rannsóknir á norðurslóðum og að veita ráðgjöf til stjórnvalda um málefni þeirra. Stofnunin leiðir saman opinberar rannsóknarstofnanir og -samtök frá 23 löndum og hefur skipað sér sess sem einn mikilvægasti alþjóðlegi samstarfs­vettvangurinn um rannsóknir og vöktun á norðurslóðum. 

Þetta er gríðarlega áhugavert verkefni og margvíslegur ávinningur að fá skrifstofuna hingað til lands. Með henni fengi íslenskt vísindasamfélag aðgang að öflugu tengslaneti vísindamanna á norðurslóðum og líklegt er að áhugi erlendra vísindamanna á rannsóknarsamstarfi við Íslandi myndi eflast. Þá skiptir ekki síður máli að skrifstofan gæti eflt enn frekar þá merkilegu  norðurslóðastarfsemi sem fyrir er á Akureyri, sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. 


Á Akureyri eru þegar til staðar nokkrar stofnanir um málefni norðurslóða. Má þar nefna Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, skrifstofur Norðurskautsráðsins: PAME (Protection of the Arctic Marine Environment) og CAFF (Conservation of Arctic Fauna and Flora), og Norðurslóðanet Íslands. Á Akureyri starfar einnig sérhæft fyrirtæki, Arctic Portal, við söfnun, úrvinnslu og miðlun upplýsinga um norðurslóðir. Á Akureyri er því öflugt norðurslóðasamfélag undir einu þaki sem gæti skapað ýmiss konar samvirkni við IASC skrifstofuna.

Frá upphafi hefur Rannís átt aðild að IASC fyrir hönd Íslands. IASC hefur áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu og gegnir mikilvægu hlutverki við miðlun upplýsinga frá vísindasamfélaginu til ráðsins um niðurstöður rannsókna á náttúru- og samfélagsbreytingum á norðurslóðum.
Skrifstofa IASC hefur frá árinu 2009 verið staðsett í Potsdam í Þýskalandi en áður hefur skrifstofa IASC verið staðsett í Svíþjóð og Noregi. Skrifstofan er ábyrg fyrir daglegri starfsemi IASC. Ef að yrði myndi Ísland taka við rekstrinum í byrjun árs 2017. 

Ákvörðun um staðsetningu IASC skrifstofunnar verður tekin á ársfundi IASC í Fairbanks, Alaska sem haldinn er þar um miðjan mars

Þetta vefsvæði byggir á Eplica