Rannís tekur á móti Hringiðu

6.5.2022

Rannís er einn af bakhjörlum viðskiptahraðalsins Hringiðu sem hefur það að markmiði að draga fram, efla og styðja við nýsköpunarverkefni fyrirtækja og stofnana. Þann 3. maí sl. tóku sérfræðingar á vegum Rannís á móti sjö teymum í vinnustofu um Evrópuumsóknir.

Í lok hraðals verða þátttakendur í stakk búin að sækja um í Evrópustyrki LIFE-áætluninnar sem byggir á hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins. LIFE er ein af samstarfsáætlunum ESB sem hefur fjármagnað verkefni á sviði loftslags- og umhverfismála frá árinu 1992. LIFE-áætlunin gegnir mikilvægu hlutverki við að ná fram á næstu árum nauðsynlegri umbreytingu yfir í hreinna, orkunýtið og kolefnishlutlaust samfélag í anda hringrásarhagkerfisins.

Viðskiptahraðallinn byggir á alþjóðlegri fyrirmynd og býður upp á metnaðarfullan vettvang og góðan undirbúning fyrir umsóknir í Evrópustyrki. Þungamiðjan í hraðlinum felst í skipulögðum fundum þátttakenda með reyndum frumkvöðlum, fjárfestum og öðrum sérfræðingum. Um er að ræða sannreynt ferli þar sem allt að tíu sprotaverkefnum er veittur aðgangur að breiðu tengslaneti leiðbeinenda úr atvinnulífinu og markvissri þjálfun.

Umsjón með hraðlinum er í höndum Klak sem hefur til fjölda ára veitt aðstoð við þróun viðskiptahugmynda og leitt saman hóp hagaðila með verðmætasköpun að leiðarljósi. Að verkefninu standa, auk Rannís, Orkuveita Reykjavíkur, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Reykjavíkurborg, Sorpa, Terra, Faxaflóahafnir, Samtök iðnaðarins og Ölgerðin. 

Nánari upplýsingar um Hringiðu má nálgast á: Hringiða – Klak

Þetta vefsvæði byggir á Eplica