Rannsóknaþing 2022 og afhending Hvatningarverðlauna Vísinda- og tækniráðs

4.11.2022

Rannsóknaþing er haldið í dag, fimmtudaginn 24. nóvember kl. 14.00-16.00, undir yfirskriftinni Þekking í þágu samfélags: Áhrif rannsókna á Íslandi. Þingið fer fram á Hilton Reykjavík Nordica

Rannís og Vísinda- og tækniráð bjóða til Rannsóknaþings fimmtudaginn 24. nóvember. 

Að þessu sinni verður sjónum beint að áhrifum rannsókna á Íslandi. Á dögunum gaf háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið út áhrifamat á Rannsóknasjóði fyrir árin 2011-2015 og verður það tekið til umfjöllunar á þinginu. Samkvæmt áhrifamatinu er Rannsóknasjóður ómissandi fyrir íslenskt vísindasamfélag, styrkir úr sjóðnum eru mikilvægt fyrsta skref við upphaf rannsókna og auki möguleika styrkþega á að sækja erlenda styrki í kjölfarið.

Þá verður einnig til umfjöllunar á þinginu gagnagrunnurinn IRIS en það er kerfi sem birtir rannsóknavirkni og samfélagslega dreifingu þekkingar við rannsóknir hjá íslenskum háskólum og stofnunum sem eiga aðild að kerfinu. Kerfið, sem hleypt var af stokkunum fyrr á þessu ári, er í þróun og mun taka breytingum eftir því sem fram líða stundir en þegar hafa verið birtar rúmlega 30 þúsund rannsóknaafurðir í kerfinu.

Í lok þingsins verða Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs veitt vísindamanni sem þykir hafa skarað fram úr snemma á ferlinum og skapað væntingar um framlag í vísindastarfi er treysti stoðir mannlífs á Íslandi.

Smellið hér til að skoða glærur frá Rannsóknaþingi

Upptaka frá Rannsóknaþingi

 

Dagskrá

  • Setning Rannsóknaþings
    • Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra
  • Áhrifamat Rannsóknasjóðs
    • Dr. Katrín Frímannsdóttir, stefnu- og gæðastjóri við Háskóla Íslands
  • IRIS Rannsóknagátt fyrir Ísland
    • Sara Stef. Hildardóttir, verkefnastjóri rannsóknarþjónustu og opins aðgangs hjá Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni
  • Stuðningur við hugvitssamfélagið
    • Ágúst Hjörtur Ingþórsson, forstöðumaður Rannís
  • Þekking í þágu samfélags: Áhrif rannsókna á Íslandi – Pallborðsumræður
    • Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vísinda- og tækniráðs
    • Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra
    • Dr. Katrín Frímannsdóttir, stefnu- og gæðastjóri við Háskóla Íslands
    • Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands
    • Margrét Helga Ögmundsdóttir, dósent á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands
  • Afhending Hvatningarverðlauna Vísinda- og tækniráðs
    • Kristján Leósson, formaður dómnefndar, gerir grein fyrir störfum dómnefndar.
    • Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vísinda- og tækniráðs afhendir verðlaunin.

Að loknu þingi verður boðið upp á léttar veitingar.

Fundarstjóri: Ágúst Hjörtur Ingþórsson, forstöðumaður Rannís

Aðgangur ókeypis en gestir þurfa að skrá sig*

*Rannsóknaþingið verður einnig í beinu streymi og þau sem einungis ætla að horfa á streymið þurfa ekki að skrá þátttöku.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica