Stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki: afgreiðsla umsókna sem bárust 2024
Rannís hefur nú lokið að mestu afgreiðslu umsókna vegna þessa úrræðis sem bárust stofnuninni 2024. Annars vegar var um að ræða umsóknir um framhaldsverkefni þar sem umsóknarfrestur var 1. apríl og hins vegar um ný verkefni þar sem umsóknarfrestur var 1. október 2024.
Rannís hefur það hlutverk samkvæmt lögum nr. 152/2009 að staðfesta rannsókna- og þróunarverkefni frá nýsköpunarfyrirtækjum. Sú staðfesting veitir rétt til endurgreiðslu ákveðins hlutfalls af rannsókna- og þróunarkostnaði sem fellur til á umsóknarári og er talinn fram á skattframtali fyrirtækis. Er þetta úrræði einnig þekkt undir nafninu skattfrádráttur rannsókna- og þróunarverkefna.
Rannís hefur nú lokið að mestu afgreiðslu umsókna vegna þessa úrræðis sem bárust stofnuninni 2024. Annars vegar var um að ræða umsóknir um framhaldsverkefni þar sem umsóknarfrestur var 1. apríl og hins vegar um ný verkefni þar sem umsóknarfrestur var 1. október 2024.
Tafir urðu á afgreiðslu umsókna og biðst Rannís velvirðingar á því gagnvart öllum hlutaðeigandi. Þær tafir eiga sér margvíslegar orsakir. Aukinn fjöldi umsókna síðustu ár hefur valdið því að mikið álag hefur verið á starfsfólki, þá hefur í mun meira mæli þurft að kalla eftir ítarlegri gögnum frá fyrirtækjum og heimsóknum til þeirra hefur einnig fjölgað. Þá hefur sama starfsfólk þurft að sinna öðrum tímafrekum verkefnum og úttektum OECD og Ríkisendurskoðunar. Rannís hefur metið það svo að mikilvægt sé að vanda afgreiðslu þó að það komi niður á málshraða.
Rannís hefur afgreitt 276 umsóknir um ný verkefni en alls bárust 300 umsóknir. Tæp 42% umsókna um ný verkefni voru samþykkt. Tæplega 32% umsókna var hafnað eftir að umsækjendur höfðu nýtt fyrirspurna- og andmælarétt. Rúmlega 26% umsókna voru ekki samþykktar vegna fjárhagsvanda fyrirtækis á umsóknarárinu eða vegna þess að fyrirtæki brást ekki við fyrirspurn Rannís eða áformum um höfnun.
Rannís hefur afgreitt 305 umsóknir um framhaldsverkefni en alls bárust 313 umsóknir þess efnis. Tæp 84% framhaldsumsókna voru samþykkt og um 7% umsókna var hafnað eftir að umsækjendur höfðu nýtt fyrirspurna- og andmælarétt. Tæp 10% umsókna voru ekki samþykktar vegna fjárhagsvanda fyrirtækis á umsóknarári eða vegna þess að fyrirtæki brást ekki við fyrirspurn Rannís eða áformum um höfnun.
Samtals er því búið að afgreiða 95% umsókna sem bárust á árinu 2024 og hafa 64% umsókna verið samþykktar en 36% hafnað. Afgreiddar umsóknir bárust frá alls 375 fyrirtækjum og fengu 239 þeirra eina umsókn eða fleiri samþykktar, sem jafngildir um 64% fyrirtækja. Helsta orsök höfnunar var að lýsing á verkefni eða verkþættir báru með sér að verkefni væri hluti af reglubundinni almennri starfsemi umsóknarfyrirtækis og uppfylli því ekki þau skilyrði sem þurfa að vera til staðar til að Rannís samþykki þau sem rannsókna- og þróunarverkefni. Þannig var nokkuð algengt að þróunarþáttur verkefnis væri óskýr og að umsækjendur lýstu almennum áskorunum sem mörg fyrirtæki þurfa að horfast í augu við en ekki vel afmörkuðum rannsókna- og þróunarverkefnum.
Rannís vinnur stöðugt í að bæta sína verkferla til að stytta afgreiðslutíma og bæta upplýsingagjöf til fyrirtækja hvað þetta úrræði snertir. Er þessi tilkynning liður í þeirri vinnu. Þá vinnur Rannís með ráðuneytum fjármála og nýsköpunar að endurskoðun á regluverki og verklagi sem munu leiða til þess að afgreiðslutími umsókna sem hafa borist á þessu ári muni verða styttri.