Styrkir til aukinna atvinnutækifæra fatlaðra

10.6.2025

Félags- og vinnumálaáætlun ESB lýsir eftir umsóknum um styrki til verkefna sem ætlað er að auka atvinnutækifæri fatlaðra. 

Lýst hefur verið eftir umsóknum um styrki til verkefna sem ætlað er að auka atvinnutækifæri fatlaðra (Disability Employment Package) og er umsóknarfrestur til 25. október 2025. Styrkirnir eru veittir af Félags- og vinnumarkaðsáætlun ESB sem tilheyrir þeim hluta Félagsmálasjóðs ESB (European Social Fund+) sem Ísland hefur aðgang að. 

Hægt er að sækja um styrki fyrir verkefni á eftirfarandi sviðum:

  • að styrkja atvinnu- og samþættingarþjónustu,
  • að efla ráðningarmöguleika með jákvæðum aðgerðum, og að berjast gegn fordómum,
  • að tryggja sanngjarna aðlögun, að tryggja heilsu og öryggi við vinnu í tilfelli langvinnra sjúkdóma, vinnuslysa eða fötlunar,
  • að styrkja úrræði sem vinna að því að koma fólki aftur út á vinnumarkaðinn
  • að auka möguleika á atvinnúrræðum á vernduðum vinnustöðum og leiðir að opnum vinnumarkaði.

Umsækjendur skulu vera lögaðilar og þurfa að vera þrír þátttakendur frá að minnsta kosti tveimur aðildarlöndum ESB. Einn aðilinn þarf að vera opinber aðili.

Til skiptanna eru 10 milljónir evra og er hægt að sækja um verkefnastyrk frá 500 þúsund til 1 milljón evra.

Hér má lesa nánar um kallið. Hægt er að leita eftir samstarfsaðilum á þessari slóð.

Haldinn verður rafrænn upplýsingafundur á vegum Evrópusambandsins þann 25. júní nk. og verða upplýsingar sendar á póstlista Rannís fyrir áætlunina.

Andrés Pétursson er landstengiliður áætlunarinnar hjá Rannís og veitir allar nánari upplýsingar. 









Þetta vefsvæði byggir á Eplica