Tækniþróunarsjóður flýtir úthlutunum ársins

7.4.2020

Í ljósi breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu hefur stjórn Tækniþróunarsjóðs ákveðið að flýta öllum úthlutunum sjóðsins á árinu, í samráði við ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Sjóðurinn heyrir undir ráðherra og hafa stjórnvöld, sem hluti af aðgerðum til að örva atvinnulífið, aukið fjármagn til sjóðsins um 700 milljónir króna á þessu ári.

Sjóðurinn hefur því 3.030 milljónir kr. til úthlutunar á árinu, til að styrkja ný verkefni og til verkefna sem sjóðurinn er nú þegar að styrkja.

Hlutverk Tækniþróunarsjóðs er að ýta undir nýsköpun í íslensku atvinnulífi og auka þar með samkeppnishæfni landsins. Mat á áhrifum sjóðsins hefur sýnt að hann gegnir mikilvægu hlutverki og er oft mikilvæg forsenda þess að þekking og drifkraftur íslenskra frumkvöðla skili ávinningi fyrir íslenskt atvinnulíf. Þetta hlutverk sjóðsins er ekki síst mikilvægt á þeim tímum sem fara í hönd í kjölfar erfiðleika sem núna steðja að í þjóðfélaginu.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segir af þessu tilefni:

Með auknum framlögum í Tækniþróunarsjóð viljum við styrkja betur við frumkvöðlastarf og nýsköpun hér á landi. Tækniþróunarsjóður er faglegur samkeppnissjóður sem hefur það hlutverk að styðja við þróunarverkefni og störf sem byggir á hugviti og þekkingu – einmitt störfin sem við þurfum núna. Aukin framlög í sjóðinn munu skila sér í auknum úthlutunum nú þegar í vor og þannig sjáum við fram á að fleiri störf og tækifæri skapist fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki, strax á þessu ári. Þessar aðgerðir eru einnig í takti við aðgerðaáætlun nýsköpunarstefnu um bætt skilyrði og skilvirkan stuðning við sprotafyrirtæki og frumkvöðla hér á landi.

Það er forgangsmál ráðherra að hlúa að nýsköpunarfyrirtækjum í landinu þar sem nauðsynlegt er að fyrirtækin nái að vinna áfram að sínum verkefnum en jafnframt er ljóst að mörg tækifæri eru til að bregðast við breytingum í heiminum með nýrri tækni. Það er því mikilvægt að bregðast hratt við.

Stjórn sjóðsins úthlutar styrkjum tvisvar á ári, í vorúthlutun og haustúthlutun. Stefnt er að því að flýta afgreiðslu umsókna sem bárust á fyrstu þremur mánuðum ársins og er áætlað að tilkynna úthlutun um mánaðarmótin apríl-maí. Jafnframt, verður umsóknarfrestur sem öllu jafna er 15. september færður fram í júní. Stefnt er að seinni úthlutun ársins í ágúst í stað desember.

Með þessum aðgerðum verður hægt að nýta fjármagn sjóðsins strax til að nýta frumkvöðla til að bregðast við efnahagslegum áföllum enda er ótvírætt að nýsköpun er mikilvæg til að snúa hjólum efnahagslífisins í gang.

Nánari upplýsingar um sjóðinn veitir Sigurður Björnsson, sviðstjóri á rannsókna- og nýsköpunarsviði Rannís.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica