Úthlutun úr Bókasafnasjóði

12.1.2022

Úthlutun úr Bókasafnasjóði 2021 samkvæmt tillögu bókasafnaráðs hefur verið samþykkt af menningarmálaráðherra. Umsóknarfrestur í bókasafnasjóð rann út þann 15. september sl. – og aukafrestur til 25. nóvember. Sjóðnum bárust 18 umsóknir og voru 20 milljónir til úthlutunar, samtals var sótt um ríflega 33 milljónir. Ellefu verkefni hljóta styrki úr sjóðnum að þessu sinni.

Hæsta styrkinn fær Hljóðbókasafn Íslands eða 6 milljónir króna fyrir verkefnið Hljóðstafi. Verkefnið snýr að því að ljúka við smíði hugbúnaðarkerfis til að samþætta upplesið hljóð og texta í aðgengilega bók. Var það mat ráðsins að þar færi saman framúrskarandi umsókn og verðugt verkefni.

Meðfylgjandi er listi yfir styrkþega og stutt lýsing á verkefnum. Næsti umsóknarfrestur í bókasafnasjóð er til 15. mars 2022.

Nafn umsækjanda Póstnúmer Heiti verkefnis Stutt lýsing Styrkur í kr.
Amtsbókasafnið á Akureyri 600 Hönnunarhugsun á Amtsbókasafninu Safnið fái erlenda sérfræðinga í notkun hönnunarhugsunar við stefnumótun og skipulag þjónustu almenningsbókasafna til að leiða vinnustofu fyrir starfsfólk Amtsbókasafnsins og hugsanlega annarra almenningsbókasafna í nágrenni Akureyrar. 990.000
Borgarbókasafn Reykjavíkur 101 Gerðuberg kallar Gerðuberg kallar eftir skapandi einstaklingum til að vinna að eigin verkefni á bókasafninu sem tengist hugmyndum um að tilheyra og öruggum rýmum. Verkefnið er tilraun í þróun bókasafnsins sem samfélagsrými og þátttökugátt. 775.000
Borgarbókasafn Reykjavíkur 101 Stofan – A Public Living Room Hvernig tökumst við sem samfélag á við breytta tíma? Upplýsingaóreiða og ófyrisjáanleiki einkenna hversdaginn. Bókasafnið getur skapað samastað sem byggir á trausti, fólki líður vel á og finnur að það tilheyrir einhverju stærra. 690.000
Borgarbókasafn Reykjavíkur 101 VV-sögur - skapandi sögumenning Döff á bókasafninu Táknmálsbókmenntir eru samdar á sjónrænu tungumáli og þær eru einungis til þegar þær eru fluttar. Verkefnið skapar táknmálsbókmenntum rými á bókasafninu og setur VV-sögur í samhengi við íslenskt menningarsamfélag. 1.260.000
Félag fagfólks á skólasöfnum 105 Vefsíða fyrir starfsfólk grunnskólasafna Vefsíða fyrir starfsfólk grunnskólasafna á Íslandi sem yrði vettvangur fyrir samvinnu, faglegt samstarf og miðlun á sameiginlegu efni af ýmsum toga. 2.000.000
Félag um barnabókasafn 108 Stofnun barnabókasafns Barnabókasafnið verði rannsóknar- og fræðasafn þar sem safnað er saman bókum og tímaritum sem íslenskum börnum hefur verið boðið upp á frá því byrjað var að gefa út bækur fyrir ungt fólk á íslensku og til dagsins í dag. 1.500.000
Háskólinn í Reykjavík 108 Upplýsingalæsi - notkun hugtaksins á bókasöfnum Varpað ljósi á stöðu hugtaksins „upplýsingalæsi“ meðal upplýsingafræðinga sem starfa á íslenskum bókasöfnum. Skoðað hvernig fagstéttin hugsar um hugtakið, beitir því í starfi sínu og hvaða hlutverki, ef einhverju, það gegnir í faglegri sjálfsmynd. 1.500.000
Hljóðbókasafn Íslands 200 Hljóðstafir Lokið við smíði hugbúnaðarkerfis til að samþætta upplesið hljóð og texta í aðgengilega bók og verður unnið í samvinnu við systursafn okkar í Danmörku. Kerfið verður „open source“ og mun auðvelda gerð aðgengilegra bóka og nýtast þeim sem glíma við lestrarhömlun. 6.000.000
Landskerfi bókasafna hf. 105 Stafrænt bókasafnskort í veskisöpp í snjallsíma Verkefnið miðar að því að gera fjölbreyttan safnkost og þjónustu bókasafna í landinu aðgengilegri, notenda- og umhverfisvænni en nú er með því að breyta bókasafnskortum úr plastkortum í stafræn kort sem geymd eru í veskis-öppunum, Apple Wallet og íslenska veskisappinu SmartWallet í snjallsíma. 3.000.000
Listasafn Íslands/ Landsbókasafn 101 Stafrænar endurgerðir á sýningarskrám Samstarfsverkefni Heimildasafns Listasafns Íslands og Landsbókasafns- Háskólabókasafns um stafrænar endurgerðir á sýningarskrám íslenskra listamanna frá 1900-1950 úr Heimildasafni Listasafns Íslands, og birting þeirra í fullri lengd á vef Landsbókasafns www.baekur.is. 605.000
Reykjanesbær 230 Heima er þar sem hjartað slær Sjónum beint að konum sem koma víðsvegar að úr heiminum og valdeflingu kvenna í fjölmenningarsamfélagi með ferðalagi milli byggðarlaga. Unnið er með upplifun kvenna á hugmyndinni um heimili, þvert á þjóðerni. Afrakstur vinnunnar er þar sem hver kona túlkar hennar skynjun á "heima" með klukkuverki. 1.680.000

Bókasafnaráð 2017 - 2021

  • Linda Hrönn Þórisdóttir formaður, skipuð án tilnefningar 
  • Sigrún Blöndal varaformaður skipuð samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga
  • Pálína Magnúsdóttir skipuð samkvæmt tilnefningu Samtaka forstöðumanna almenningsbókasafna
  • Viggó Kristinn Gíslason skipaður samkvæmt tilnefningu Upplýsingar, félags bókasafns- og upplýsingafræða
  • Siggerður Ólöf Sigurðardóttir skipuð samkvæmt tilnefningu Upplýsingar, félags bókasafns- og upplýsingafræða 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica