Úthlutun úr Sviðslistasjóði 2023

25.1.2023

Umsóknarfrestur í Sviðslistasjóð rann út 3. október 2022. Alls bárust 111 umsóknir og sótt var um ríflega 1,1 milljarð króna í Sviðslistasjóð og launasjóð sviðslistafólks (1.273 mánuðir í launasjóð listamanna). 

Sviðslistaráð veitir 105 milljónum króna til 13 atvinnusviðslistahópa leikárið 2023/24 og fylgja þeim 132 listamannalaunamánuðir (ígildi 67 milljóna), 58 mánuðir voru veittir einstaklingum utan sviðslistahópa.

Heildarstuðningur til sviðslistahópa er því 172 milljónir.


Mestan stuðning að þessu sinni fá Hringleikur– sirkuslistafélag fyrir götuleikhússýninguna Sæskrímslin sem mun fara fram á hafnarsvæðum víðs vegar um landið og Menningarfélagið MurMur og sviðslistahópurinn Rauði sófinn fyrir endurgerð á íslenska verkinu Aðventu.

Eftirtalin verkefni hlutu stuðning úr sviðslistasjóði og launasjóði sviðslistafólks:


Hringleikur – sirkuslistafélag 16.000.000 kr. og 13 mánuðir. SLS og LML = 22.597.500 kr.

 • Sviðslistahópur: Hringleikur
 • Forsvarsmaður: Eyrún Ævarsdóttir
 • Tegund verkefnis: Sirkussýning
 • Heiti verkefnis: Sæskrímslin [vinnuheiti]

Stutt lýsing: Sæskrímslin er götuleikhússýning af stærri gerðinni sem frumflutt verður á Listahátíð í Reykjavík 2024. Verkið verður 40 mínútna heildstæð sýning sem fer fram á hafnarsvæðum á nokkrum stöðum á landinu. Háar stultur, loftfimleikar og önnur sérhæfð tækni sirkussins, auk afburða sviðsgervahönnunar skapa draumkennda og um leið ágenga sýningu. Innblástur verksins verður fenginn úr þjóðsagnaarfi Íslendinga. Sirkushópurinn Hringleikur í samstarfi við Pilkington Props standa að verkinu.

Menningarfélagið MurMur 15.200.000 kr. og 13 mánuðir. SLS og LML = 21.797.500 kr.

 • Sviðslistahópur: Rauði sófinn.
 • Forsvarsmaður: Egill Ingibergsson
 • Tegund verkefnis: Endurgerð á íslensku verki
 • Heiti verkefnis: Aðventa

Stutt lýsing: Sviðslistahópurinn Rauði sófinn stefnir að nýrri og frumlegri uppsetningu á Aðventu Gunnars Gunnarssonar, einni af helstu perlum íslenskra bókmennta. Í sýningunni verður leitast við að miðla þáttum verksins – stórfenglegri náttúru, ríku innra lífi aðalsögupersónunnar Benedikts og samspilinu þar á milli – í verki án orða þar sem myndlist, tónlist, leiklist og tækni mynda órofa heild.

Kváma ehf. 8.200.000 kr. og 21 mánuðir. SLS og LML = 18.857.500 kr.

 • Sviðslistahópur: Kváma ehf.
 • Forsvarsmaður: Þór Breiðfjörð Kristinsson
 • Tegund verkefnis: Nýr íslenskur söngleikur
 • Heiti verkefnis: Söngleikurinn rokkarinn og rótarinn

Stutt lýsing: Rokkarinn og rótarinn er nýr íslenskur söngleikur fyrir fullorðna, grín og alvara í bland, með frumsaminni tónlist og handriti eftir Þór Breiðfjörð.

Sláturhúsið Menningarmiðstöð 10.200.000 kr. og 16 mánuðir. SLS og LML = 18.320.000 kr.

 • Sviðslistahópur: Svipir
 • Forsvarsmaður: Ragnhildur Ásvaldsdóttir
 • Tegund verkefnis: Nýtt íslenskt barnaleikrit
 • Heiti verkefnis: Hollvættur á heiði, barnaleikrit

Stutt lýsing: Fjörugt nýtt barnaleikrit unnið uppúr þjóðsögum og arfleifð Austurlands frumsýnt á Egilsstöðum í apríl 2023. Verkið, sem er ævintýri með söngvum er sérsamið í tilefni af vígslu glænýs "blackbox"-leikhúss í Sláturhúsinu Menningarmiðstöð á Egilsstöðum. Listræn stjórnun er í höndum fagfólks með reynslu og leikhópurinn samanstendur af atvinnuleikurum og skínandi áhugaleikurum úr nærsamfélaginu.

Gaflaraleikhúsið, félagasamtök 15.000.000 kr.

 • Sviðslistahópur: Gaflaraleikhúsið
 • Forsvarsmaður: Larus Vilhjálmsson

Samstarfssamningur til eins árs með vilyrði um sams konar stuðning frá Hafnarfjarðarbæ.

Verkfræðingar 8.200.000 kr. og 13 mánuðir. SLS og LML = 14.797.500 kr.

 • Sviðslistahópur: Verkfræðingar
 • Forsvarsmaður: Karl Ágúst Þorbergsson
 • Tegund verkefnis: Samsköpunarverk
 • Heiti verkefnis: Vaðall

Stutt lýsing: Vaðall fjallar um þversagnakennt samband manns og náttúru og byggir á draumum, órum og þrám sem birtast í ljóðrænni framkvæmdasögu Vaðlaheiðaganga. Í vinnuferlinu vilja Verkfræðingar skoða hvernig sú hugmyndafræði sem grundvallar framkvæmdirnar endurspeglast í hversdagslegu lífi okkar, hvernig þrá okkar eftir betri og einfaldari heimi stangast mögulega á við heim náttúrunnar. Verkið er m.a. byggt á viðtölum við fólk sem kom að framkvæmdum eða varð fyrir áhrifum af þeim.

Kammeróperan ehf. 2.000.000 kr. og 23 mánuðir. SLS og LML = 13.672.500 kr.

 • Sviðslistahópur: Kammeróperan
 • Forsvarsmaður: Jóna G Kolbrúnardóttir
 • Tegund verkefnis: Ópera / fjölskyldusýning
 • Heiti verkefnis: Ævintýraóperan Hans og Gréta í uppsetningu KÓ

Stutt lýsing: Kammeróperan ætlar að setja upp ævintýraóperuna Hans og Grétu. Sýningin er barnasýning þar sem börn og ungmenni fá að upplifa óperu af bestu gerð. Hópurinn mun einnig heimsækja skóla á höfuðborgarsvæðinu og flytja senur úr sýningunni. Kynning á óperulistformi fyrir börnin og einnig kynning fyrir sýninguna.

Melkorka Sigríður Magnúsdóttir 7.900.000 kr. og 10 mánuðir. SLS og LML = 12.975.000 kr.

 • Sviðslistahópur: Milkywhale
 • Forsvarsmaður: Melkorka Sigríður Magnúsdóttir
 • Tegund verkefnis: Dansverk
 • Heiti verkefnis: Hverfa

Stutt lýsing: Dansverkið Hverfa er rannsókn á tilraunum mannsins til að túlka það sem við sjáum ekki eða er fjarverandi og gefa því líkamlegt form. Þannig verður fysískum líkama teflt á móti hugmyndinni um ósýnilegan líkama og samband þeirra skoðað nánar. Titill verksins vísar annars vegar til hugtaksins ,,að hverfa‘‘ og hins vegar til samhverfunnar sem lögð er til grundvallar hreyfiefnis.

Áhugafélagið Díó 5.400.000 kr. og 12 mánuðir. SLS og LML = 11.490.000 kr.

 • Sviðslistahópur: Díó
 • Forsvarsmaður: Aðalbjörg Árnadóttir
 • Tegund verkefnis: Samsköpunarverk
 • Heiti verkefnis: Piparfólkið

Stutt lýsing: Heimildarverkið Piparfólkið fjallar um ótta við umbreytingar og leyndarmál ákveðins starfsmanns Gasstöðvarinnar við Hlemm í upphafi 20. aldar. Hversvegna skrifaði hann undir dulnefninu Gylfi? Og hví vissu ættingjar hans lítið sem ekkert um vinsældir hans þar til fyrir skömmu?

Jóhanna Vala Höskuldsdóttir 4.900.000 kr. og 11 mánuðir. SLS og LML = 10.482.500 kr.

 • Sviðslistahópur: Hljómsveitin Eva
 • Forsvarsmaður: Jóhanna Vala Höskuldsdóttir
 • Tegund verkefnis: Samsköpunarverk
 • Heiti verkefnis: Af Myrkri og Mannverum

Stutt lýsing: Af Myrkri og Mannverum er tragíkómískt sjálfshjálpar sviðsverk um mannlegan sársauka, framleitt og flutt af Hljómsveitinni Evu og Brett Smith.

Silfra Productions ehf. 6.000.000 kr.

 • Sviðslistahópur: Silfra Productions ehf.
 • Forsvarsmaður: Þóra Karítas Árnadóttir
 • Tegund verkefnis: Þýtt leikverk
 • Heiti verkefnis: Samdrættir

Stutt lýsing: Verkið Samdrættir eftir Mike Bartlett er marglaga dramakómedía sem fær áhorfandann til að hugsa um hvers kyns valdaójafnvægi, andlegt ofbeldi, mörk og meðvirkni, valdatafl þjóða í samhengi við stríð, hið stóra og smáa og hættuna sem felst í því að taka öllu þegjandi og hljóðalaust til að styggja ekki þá sem hafa úrslitaáhrif um veraldlega velgengni okkar.

Esperanza Yuliana Palacios Figueroa 3.500.000 kr.

 • Sviðslistahópur: Yuliana Palacios
 • Forsvarsmaður: Esperanza Yuliana Palacios Figueroa
 • Tegund verkefnis: Dansverk
 • Heiti verkefnis: Hér á ég heima

Stutt lýsing: Hér á ég heima er þverfaglegt samtímadansverk sem sameinar sviðslistir, myndbandslist og hljóð. Verkið verður frumflutt á dansmyndahátíðinni Boreal Screendance Festival þann 10. nóvember 2023 í Listasafninu á Akureyri.

LGF slf. 2.500.000 kr.

 • Sviðslistahópur: LGF slf.
 • Forsvarsmaður: Heiðar Sumarliðason
 • Tegund verkefnis: Skrif og þróun
 • Heiti verkefnis: Andsetin

Stutt lýsing: Andsetin er nýtt íslenskt hryllings leikrit, sem gerist í norðanverðum Hvalfirðinum. Leikverkið er í grunninn fjölskylduharmleikur en verður að spennu/hryllingsverki þar sem öll trixin í bókinni verða notuð til að hræða áhorfendur og halda þeim á sætisbrúninni frá byrjun til enda.


Sjá nöfn listamanna í sviðslitahópum sem úthlutun úr launasjóði sviðslistafólks er tengd við í uppfærðri frétt um úthlutun listamannalauna 2023.


Sviðslistaráð starfar samkvæmt ákvæði 15. gr laga nr. 165/2019 um sviðslistir. Hlutverk sviðslistasjóðs er að efla íslenskar sviðslistir og standa straum af öðrum verkefnum sem falla undir hlutverk og starfsemi á sviði sviðslista með úthlutun fjár úr sjóðnum til atvinnuhópa.

Sviðslistaráð skipa: Hrefna Hallgrímsdóttir formaður, án tilnefningar, Vigdís Másdóttir, tilnefnd af SAFAS og Agnar Jón Egilsson, tilnefndur af SAFAS

*Birt með fyrirvara um villur

Þetta vefsvæði byggir á Eplica