Vaxtarsproti ársins er Aldin Dynamics
Sprotafyrirtækið Aldin Dynamics hefur verið valið Vaxtarsproti ársins sem er viðurkenning fyrir öfluga uppbyggingu sprotafyrirtækis en velta fyrirtækisins jókst um 514% milli ára, fór úr 151 milljón króna í 929 milljónir króna. Fjármála- og efnahagsráðherra, Daði Már Kristófersson, afhenti Vaxtarsprotann 2025 í Flórunni í Grasagarðinum í Laugardal miðvikudaginn 24. september 2025.
Aldin Dynamics vinnur að þróun tölvuleikja og hugbúnaðartækni sem gerir notendum kleift að eiga raunsæ samskipti við gervigreindar-karaktera í sýndarheimum. Félagið byggir á margra ára reynslu í sýndarveruleika og markar með þessu nýtt skref í stafrænni upplifun framtíðarinnar. Fyrirtækið hefur tvö einkaleyfi sem tengjast greiningu á hegðun notenda, auk fjölda skráðra vörumerkja í Evrópu og Bandaríkjunum, þar á meðal Waltz of the Wizard sem hefur selst í yfir milljón eintökum erlendis. Vörur Aldin Dynamics eru hannaðar fyrir alþjóðlega markaði og nánast allar tekjur félagsins koma utan frá.
Gunnar Steinn Valgarðsson, annar stofnandi Aldin Dynamics: „Þessi viðurkenning er okkur mikill heiður og hvatning til áframhaldandi starfa. Við viljum þakka sérstaklega uppbyggjandi sprotaumhverfi á Íslandi sem hefur veitt okkur byr undir báða vængi í gegnum tíðina. Við vonum innilega að sem flestir frumkvöðlar nýti sér þetta einstaka nýsköpunarumhverfi, taki skrefið fram á við og láti hugmyndir sínar verða að veruleika. Við hjá Aldin stefnum á að halda áfram okkar vegferð að þróa upplifanir sem sameina nýjustu tækni og listform á nýjan og aðgengilegan hátt.“
Thor Ice Chilling Solutions hlaut einnig viðurkenningu fyrir góðan vöxt. Velta fyrirtækisins jókst um 531% á milli ára, fór úr 39 milljónum króna í tæplega 247 milljónir króna. Thor Ice Chilling Solutions þróar og framleiðir vörur fyrir kælingu á ferskvöru, sérstaklega í kjúklingavinnslum. Markmið fyrirtækisins er að hjálpa matvælaframleiðendum að spara orku, fækka bakteríum og auka gæði afurða til neytenda. Markaðir Thor Ice Chilling Solutions eru nær eingöngu erlendis en fyrirtækið hefur selt búnað til stærstu matvælaframleiðenda í Evrópu og er með viðskiptavini meðal annars í Frakklandi, Hollandi, Póllandi, Kanada og Saudi Arabíu.
Vaxtarsprotinn er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins (SI), Samtaka sprotafyrirtækja (SSP), Háskólans í Reykjavík (HR) og Rannsóknarmiðstöðvar Íslands (Rannís). Tilgangur verkefnisins er að vekja athygli á góðum árangri sprotafyrirtækja í örum vexti og skapa þannig aukinn áhuga og skilning á uppbyggingarstarfi þessara fyrirtækja. Þetta er í 19. sinn sem Vaxtarsproti ársins er afhentur.
Í dómnefnd voru Hrafntinna Viktoría Karlsdóttir fyrir Háskólann í Reykjavík, Svandís Unnur Sigurðardóttir fyrir Rannís og Erla Tinna Stefánsdóttir fyrir Samtök iðnaðarins.
Mynd er frá afhendingu Vaxtarsprotans í Grasagarðinum í Laugardal. Á myndinni eru,
talið frá vinstri, Svandís Unnur Sigurðardóttir frá Rannís, Sigurður Óli
Sigurðsson frá Rannís, Birgir Jósafatsson frá Thor Ice Chilling Solutions, Sigurður
Hannesson frá SI, Ester Ósk Pálsdóttir frá Thor Ice Chilling Solutions, Árni
Sigurjónsson frá SI, Daði Már Kristófersson fjármála- og efnahagsráðherra, Gunnar
Steinn Valgarðsson frá Aldin Dynamics, Páll Arinbjarnar frá Aldin Dynamics,
Erla Tinna Stefánsdóttir frá SI, Hrafntinna Viktoría Karlsdóttir frá HR og
Ragnhildur Helgadóttir frá HR.
Mynd/BIG
Fyrirtæki sem hafa hlotið Vaxtarsprotann | Fyrirtæki sem hafa fengið viðurkenningu fyrir góðan vöxt |
2007 Marorka | 2007 Gagarín, Stiki, Stjörnu-Oddi |
2008 Mentor | 2008 Betware, Valka, Kine |
2009 Mentor | 2009 Naust Marine, Gogogic, Saga Medica |
2010 Nox Medical | 2010 Valka, Hafmynd, Menn og Mýs |
2011 Handpoint | 2011 Marorka, Trackwell, Gogogic |
2012 Valka | 2012 Kvikna, ORF Líftækni, Thorice |
2013 Meniga | 2013 Controlant, Nox Medical, Lceconsult |
2014 DataMarket | 2014 Valka, Nox Medical, Skema |
2015 Kvikna | 2015 Kvikna, Valka |
2016 Eimverk | 2016 Lauf Forks, Orf Líftækni, Valka |
2017 Kerecis | 2017 TeqHire, Valka, Kvikna |
2018 Kaptio | 2018 Kerecis, Gangverk, Orf-Líftækni |
2019 CRI | 2019 Taktikal, Kerecis |
2020 Kerecis | 2020 CRI, Pure North Recycling |
2021 1939 Games | 2021 Coripharma, Algalíf |
2022 Controlant | 2022 Sidekick Health, Coripharma |
2023 Hopp | 2023 Dohop, Lauf Forks |
2024 Abler | 2024 Ankeri |
2025 Aldin Dynamics | 2025 Thor Ice Chilling Solutions |