Vísindaskóli unga fólksins hjá Háskólanum á Akureyri hlýtur viðurkenningu fyrir vísindamiðlun
Viðurkenning Rannís fyrir vísindamiðlun var afhent við opnun Vísindavöku þann 27. september og tóku þær Áslaug Ásgeirsdóttir, rektor Háskólans á Akureyri, og Dana Rán Jónsdóttir, verkefnastjóri Vísindaskóla unga fólksins, við viðurkenningunni.
Markmið Vísindaskólans er að bjóða fróðleiksfúsum ungmennum upp á fræðandi og skemmtilega afþreyingu í sumarleyfinu með því að kynnast vísindum og fræðasviðum sem endurspegla fjölbreytt námsframboð Háskólans á Akureyri.
Vísindaskóli unga fólksins varð til fyrir ellefu árum þegar Sigrún Stefánsdóttir lagði til við þáverandi rektor að setja á laggirnar skóla að sumarlagi fyrir ungt fólk á aldrinum 11–13 ára. Tilgangurinn var að auka möguleika barna á að taka þátt í uppbyggilegu starfi þegar skólastarfi lýkur að vori. Hugmyndin fékk góðar undirtektir og skólinn tók í fyrsta skipti á móti nemendum árið 2015 með dyggum stuðningi frá Akureyrarbæ og fleiri aðilum.
Vísindaskólinn stendur yfir í eina viku í júní þar sem kennd eru 5 ólík námskeið með það að markmiði að gefa ungmennum innsýn í starfsemi og rannsóknir ólíkra fræðigreina innan HA. Frá upphafi hefur kennslan verið byggð á virkri þátttöku nemenda og lögð er áhersla á að fá hæfasta fólkið sem völ er á til að miðla sinni þekkingu. Skólinn er í góðri samvinnu við fyrirtæki á svæðinu og auk þess að kynnast vísindastarfi háskólans, hafa nemendur fengið innsýn í starfsemi þeirra. Nærri 900 nemendur hafa sótt skólann frá upphafi og hefur þátttaka í Vísindaskólanum stuðlað að því að opna augu þeirra fyrir mikilvægi háskóla- og vísindastarfs.
Um 30 fyrirtæki á svæðinu hafa verið heimsótt á þeim 11 árum sem skólinn hefur verið starfræktur, þ.á.m. Norðurorka, Lögreglustöðin, Sundlaug Akureyrar, FabLab, Flugsafnið, Skólphreinsistöðin í Bótinni, Minjasafnið og Kjarnaskógarsvæðið. Vísindaskólinn er þannig ómetanlegur samfélaginu og uppbyggingu á nærsvæðinu.
Hátt í 90 nemendur tóku þátt í starfi Vísindaskólans í sumar og var boðið upp á að kynnast ólíkum viðfangsefnum eins og gervigreind, ljósmyndun, plöntuskoðun, núvitund, Alþingi, lífinu í gamla daga, fjármálum unglinga, endurnýtingu á fatnaði og þróun mannsins.
Í lok hvers Vísindaskóla er haldin hátíðleg útskrift sem svipar til brautskráningar kandídata við Háskólann á Akureyri. Rektor mætir við útskriftina og einn heiðursgestur, sem í ár var forseti Íslands, Halla Tómasdóttir.
Það er mat dómnefndar að Vísindaskóli unga fólksins við Háskólann á Akureyri sé vel að því kominn að hljóta viðurkenningu Rannís fyrir vísindamiðlun árið 2025.
Vísindaskóli unga fólksins er rekinn af Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri og er verkefnastjórn í höndum Dönu Ránar Jónsdóttur sérfræðings hjá RHA og Sigrúnar Stefánsdóttir stundakennara við háskólann, fyrrverandi forseta Hug- og félagsvísindasviðs og upphafsmanneskju skólans. Bakhjarlar skólans eru Samherji, Norðurorka og Akureyrarbær.