Athugið: Nýjar fréttir og viðburðir birtast nú eingöngu á island.is/s/rannis

Auglýst er eftir umsóknum um styrki í markáætlun um náttúruvá

12.9.2025

Um nýja markáætlun er að ræða með áherslu á rannsóknir, þróun og hagnýtingu sem tengjast náttúruvá í víðu samhengi.

Umsóknarfrestur framlengdur til 13. nóvember 2025.

Hlutverk markáætlunar um náttúruvá er að undirbúa land og þjóð betur fyrir atburði sem tengjast náttúruhamförum og öfgum náttúruafla, ásamt því að bregðast við þeim á skipulegan hátt. Markáætluninni er ætlað að styðja við nýsköpunarmiðað þekkingarsamfélag, sem nýtir öflugar grunnrannsóknir og hagnýta þekkingu til að takast á við áskoranir sem tengjast náttúruvá og miðla þekkingu til almennings og stjórnvalda.

Stjórn Markáætlunar um náttúruvá leggur áherslu á að styrkja rannsóknir, þróun og hagnýtingu sem tengjast náttúruvá í víðu samhengi. Við ákvörðun áherslna fyrir markáætlun um náttúruvá var m.a. stuðst við fjórðu samantektarskýrslu vísindanefndar um loftslagsbreytingar og stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum.

Að neðan eru dæmi um möguleg verkefni sem falla að þessum áherslum (upptalningin er ekki tæmandi):

  • Verkefni sem efla þekkingu og bæta getu til að spá fyrir um náttúruvá, þ.á.m. eldgos, jarðskjálfta, snjóflóð, aurskriður, jökulhlaup, fárviðri, kulda og flóð í sjó, ám og vötnum, gróðurelda eða smitfaraldra.
  • Verkefni sem efla viðbragðsþol (e. resilience) gagnvart náttúruvá. Undir þennan flokk falla m.a. verkefni sem lúta að forvörnum, eftirfylgni, mótvægis- og aðlögunaraðgerðum, áhættustýringu, samfélags-, heilsufars- og menningarlegum áhrifum náttúruvár og stefnumótun.

Nánari upplýsingar og leiðbeiningar til umsækjenda á vefsvæði markáætlunar um náttúruvá









Þetta vefsvæði byggir á Eplica