Aukin áhersla á vestnorrænt samstarf á sviði rannsókna og nýsköpunar með samningi við Færeyjar

5.9.2023

Rannís og Rannsóknaráð Færeyja hafa gert með sér samkomulag um að styrkja samstarf á sviði rannsókna og nýsköpunar á milli landanna tveggja.

  • Annika-og-Agust-undirritun-Faereyjar

Rannsóknaráð Færeyja og Rannís hafa undirritað viljayfirlýsingu um að styðja við og styrkja samstarf á milli rannsókna- og nýsköpunarsamfélaga Færeyja og Íslands. Yfirlýsingin, sem undirrituð var 31. ágúst sl., fylgir í kjölfar skýrslu íslenskra stjórnvalda frá árinu 2021 sem fjallaði um samskipti Íslands og Færeyja og innihélt 33 tillögur um hvernig styrkja mætti samband frændþjóðanna enn frekar.

Í viljayfirlýsingunni eru lögð fram markmið sem snúa meðal annars að því, að greina samlegðaráhrif í starfsemi rannsókna, nýsköpunar og starfsþjálfunar landanna tveggja, og auka tækifæri til samfjármögnunar í starfsemi og verkefnum sem stuðla að tvíhliða- og alþjóðlegu vísindasamstarfi. Það verður meðal annars gert með stefnumótandi fjármögnun, skipulagningu á sameiginlegum vinnustofum og tengslaviðburðum. Þá er einnig lagt til að liðka fyrir hreyfanleika starfsfólks til starfsþróunar, styrkja söfnun og greiningu á gögnum um umfang rannsókna og nýsköpunar og stuðla að öðru vísindasamstarfi sérstaklega á sviði evrópskrar- og í norrænnar samvinnu.

Rannís og rannsóknaráð Grænlands undirrituðu sambærilega viljayfirlýsingu árið 2022 og þá undirrituðu rannsóknaráð Grænlands og rannsóknaráð Færeyja samstarfsyfirlýsingu í júní á þessu ári.

„Þessi samstarfssamningur er til marks um þá áherslu sem við leggjum á vest-norrænt samstarf. Við gerðum sambærilegan samning í fyrra við grænlenska rannsóknaráðið og við vonumst til þess að þessi þrjú lönd eigi með sér nánara samstarf í framtíðinni. Þá viljum við stuðla að öflugri þátttöku ríkjanna þriggja í norrænu og evrópsku samstarfi þar sem við getum miðlað okkar þekkingu til þessara vinaþjóða“.

        Ágúst Hjörtur Ingþórsson, forstöðumaður Rannís

Stofnanirnar þrjár hafa auk þess samþykkt að skipuleggja sameiginlega tengslaviðburði fyrir löndin þrjú og mun fyrsti sameiginlegi viðburðurinn vera haldin á Hringborði norðurslóða sem fram fer í Hörpu í október næstkomandi

Mynd: Annika Sølvará, forstöðukona færeyska rannsóknaráðsins, og Ágúst Hjörtur Ingþórsson, forstöðumaður Rannís, við undirritun viljayfirlýsingarinnar á skrifstofu færeyska rannsóknaráðsins.

Smellið á happinn fyrir neðan til að lesa viljayfirlýsinguna.

Viljayfirlýsing (enska)









Þetta vefsvæði byggir á Eplica