Grænland og Ísland styrkja rannsóknasamstarf sín á milli

4.5.2022

Rannsóknaráð Grænlands og Rannsóknamiðstöð Íslands hafa gert samkomulag um að styrkja samstarf á sviði rannsókna, nýsköpunar og menntunar á milli landanna tveggja

Rannsóknaráð Grænlands og Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís) hafa undirritað viljayfirlýsingu um að styðja við og styrkja möguleika til samstafs á milli rannsóknasamfélaga Grænlands og Íslands, meðal annars þegar kemur að fjármögnun verkefna og skipulagningu vinnustofa og tengslaviðburða.

Stofnanirnar tvær stóðu fyrir vel heppnuðum viðburði um rannsóknasamstarf Grænlands og Íslands á Hringborði norðurslóða í október 2021 þar sem mikill áhugi var á að styrkja samstarfsmöguleika á fjölbreyttum rannsóknasviðum s.s. bláa hagkerfinu, landfræðipólitík, jafnréttismálum, orkuskiptum, loftlagsmálum og náttúruvá. Samstarfið tekur mið af skýrslu Grænlandsnefndar um „Samstarf Grænlands og Íslands á nýjum Norðurslóðum“ og auknum tvíhliða samskiptum landanna undanfarin ár.

Til að styðja við samstarfið frekar og kortleggja samstarfstækifæri verður haldin vinnustofa í Nuuk 25.-26. ágúst 2022 sem forfundur fyrir Grænlandsmálþing Hringborðs norðurslóða. Að vinnustofunni koma Rannís, Rannsóknaráð Grænlands, Norðurslóðanet Íslands og Arctic Hub.

Yfirlýsing um áhuga (Expression of Interest) sem jafnframt er umsókn um ferðastyrk 

Til undirbúnings vinnustofunnar í Nuuk verður haldinn upplýsingafundur föstudaginn 6. maí kl. 11:00-12:00 á skrifstofu Rannís (Borgartúni 30, 105 Reykjavík) og rafrænt. Áhugasömum sem viðja taka þátt er bent á að hafa samband við Egil Þór Níelsson, sérfræðing hjá Rannís. Á fundinum verður samstarfið kynnt nánar, umræður um áhersluatriði auk upplýsinga um ferðastyrki vegna viðburðarins á Grænlandi og kynningar á Grænlandsmálþingi Hringborðs norðurslóða.

Josephine Nymand, Stjórnarformaður Rannsóknaráðs Grænlands:

„Það hefur verið ánægjulegt að ræða þá fjölmörgu samstarfsmöguleika sem liggja fyrir með okkar íslensku samstarfsaðilum. Það er einlægur vilji beggja aðila að styðja við framtíðarsamstarf um okkar sameiginlegu rannsóknahagsmuni og forgangsatriði. Þegar kemur að rannsóknastefnumótun og fjárfestingum, þá hefur Ísland jafnframt margt fram að færa sem Grænland getur lært af.“

Ágúst Hjörtur Ingþórsson, forstöðumaður Rannís:

„Á síðastaliðnu þingi Hringborðs norðurslóða í Reykjavík þá náðum við mikilvægu skrefi fram á við um að styrkja samstarfshlekki okkar við grænlenska þekkingarsamfélagið. Samkomulagið við Rannsóknaráð Grænlands er mikilvægur hluti af samstarfi okkar um málefni norðurslóða og við horfum fram á að samkomulagið muni treysta grunninn fyrir margvísleg tækifæri á sviði vísinda, nýsköpunar og menntunnar í samstarfi við okkar næsta nágranna.“

Viljayfirlýsing Rannsóknaráðs Grænlands og Rannís (MoU) (pdf)


Frekari upplýsingar veita:

Egill Þór Níelsson, sérfræðingur, Rannís, s. 515 5857, netfang: egill.t.nielsson@rannis.is

Maliina Jensen, ritari Rannsóknaráðs Grænlands, s. +299-222 090, netfang: maje@natur.gl

Mynd: Heimsókn Rannsóknaráðs Grænlands og Rannís á Bessastaði 12. október 2021

In English









Þetta vefsvæði byggir á Eplica