Barnamenningarsjóður úthlutar styrkjum til 41 verkefnis árið 2023

21.5.2023

Tilkynnt hefur verið um úthlutun úr Barnamenningarsjóði Íslands fyrir árið 2023. Þetta er fimmta og síðasta úthlutun sjóðsins í núverandi mynd. 

  • BMS23_uthl21mai

Sjóðurinn styrkir 41 metnaðarfullt verkefni og er heildarupphæð úthlutunarinnar 96,8 milljónir króna. Alls bárust 105 umsóknir og var sótt um tæplega fjórfalda þá upphæð sem sjóðurinn hafði til úthlutunar eða rúmar 373 milljónir króna. Úthlutun var tilkynnt við athöfn í skála Alþingis á degi barnsins, sunnudaginn 21. maí 2023.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra ávörpuðu fulltrúa verkefnanna af þessu tilefni og Eva Jáuregui söng tvö lög við undirleik Francisco Javier Jáuregui.

Þriggja manna fagráð fjallaði um umsóknirnar og forsætisráðherra samþykkti tillögu stjórnar sjóðsins. Í umsögn fagráðs segir m.a.: „Til að draga fram eitthvað sem segja má að einkenni umsóknirnar í ár, þá eru það helst þættir á borð við aðgengi og inngildingu, ásamt því sem flokka mætti sem samspil náttúruvísinda, umhverfisverndar og listsköpunar. Nokkur fjöldi umsókna tekur með sannfærandi hætti mið af Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem er ótvíræður styrkur. Eins má nefna umsóknir sem byggja á umfangsmiklu erlendu samstarfi, sem er til þess fallið að auðga varanlega starf barna og ungmenna á sviði lista og menningar. Þá var í ár nokkur fjölgun umsókna um fjölbreyttar barnamenningarhátíðir, þar sem innlend verkefni af ólíkum toga eru tengd saman undir einn hatt, ýmist þematengt eða landshlutabundið.“

Hæstu styrkina fá Guðrún Rútsdóttir o.fl. fyrir verkefnið „Djasshátíð barnanna og Barnadjass um allt land“ og Listasafn Íslands fyrir verkefnið „Ísabrot – Jöklar í íslenski náttúru“, þar sem listamenn munu vinna með grunnskólabörnum í öllum landshlutum.

Nánari lýsing á verkefnum sem voru styrkt

Styrkt verkefni 2023

Umsækjandi Titill Úthlutun í kr.
Guðrún Rútsdóttir Djasshátíð barnanna - Barnadjass um allt land 6.000.000
Listasafn Íslands Ísabrot – jöklar í íslenskri náttúru 6.000.000
Hringleikur - sirkuslistafélag Sæskrímslin 5.500.000
Austurbrú ses. BRAS menningarhátíð fyrir börn og ungmenni á Austurlandi / Hringavitleysa 5.000.000
Náttúruminjasafn íslands Eldur, ís og mjúkur mosi – börn segja frá þjóðgarðinum sínum 5.000.000
Sinfóníuhljómsveit Suðurlands ehf. Burtu með fordóma 5.000.000
Vestfjarðastofa ses. Barnamenningarhátíð á Vestfjörðum 4.600.000
Heimildarmyndahátíðin Skjaldborg Skjaldbakan 4.500.000
Akraneskaupstaður Barnamenning Akraness 2024 4.100.000
Pera Óperukollektíf, félagasamtök. Söng- og óperuverkefni á Óperudögum 2023 4.000.000
Leikfélag Reykjavíkur ses. Krakkaþing Fíusólar 3.300.000
Jóhann Guðmundur Jóhannsson Tumi fer til tunglsins 3.000.000
Eyjólfur Eyjólfsson Langspilssmiðjur með Fab Lab-langspilum. 3.000.000
Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús ohf. Fjölskyldudagskrá Hörpu, inngildingar- og aðgengisátak 3.000.000
Reykjanesbær List ástundun sem jöfnunartæki og sýning barna í Reykjanesbæ. 2.900.000
Sprengjuhöllin ehf Trúnaðarmál 2.800.000
Menningarfélagið MurMur Twisted Forest 2.270.000
Reykjavíkurborg Sögur - Skapandi skrif og Sögur - Verðlaunahátíð barnanna 2.000.000
ASSITEJ á Íslandi - samtök um leikhús fyrir unga áhorfendur. UNGI- Sviðslistahátið allra barna 2.000.000
Borgarbókasafn Reykjavíkur Hinsegin prentfélagið 2.000.000
Ásthildur Ákadóttir Máfurinn tónlistarsmiðja 2.000.000
STEM Ísland, félagsamtök Náttúruvísindakrakkar: Sumarnámskeið á Húsavík 1.800.000
Miðnætti leikhús Á eigin fótum - leiksýning og námskeið 1.650.000
LungA-Listahátíð ungs fólks,AL Fjölskylduhátíð LungA og smiðjur fyrir Lunga unga, krakka og ungmenni 1.480.000
Hlutmengi ehf. MENGI MIX 1.360.000
Nanna Gunnarsdóttir Tíst tíst! Tweet tweet! Cwir cwir! 1.350.000
Sequences-myndlistarhátíð Myndlistarmiðlunarátak til barna og ungmenna á Sequences 1.300.000
Kammerhópurinn Reykjavík-Barokk "Krakka-barokk í Breiðholti" - fjölskyldutónleikar 1.000.000
Steingrímur - Listfélag Steingrímsfjarðar Ísleifur á heimaslóðum 1.000.000
Leikfélag Hornafjarðar Spuna smiðjur fyrir börn á Hornafirði. 1.000.000
Listasafn Ísafjarðar listasmiðjur / námskeið Listasafns Ísafjarðar - Einn, tveir og skapa! 970.000
Norðurslóðanet Íslands Að alast upp þar sem ,,ekkert gerist" málþing á alþjóðlegri ráðstefnu ásamt listviðburði á ráðstefnunni. 900.000
Borgarbókasafn Reykjavíkur Við matarborðið 820.000
Mýrin, félag um barnabókmenntahátíð Mýrin, alþjóðleg barnabókmenntahátíð 800.000
Akureyrarbær Samspil – Listvinnustofur ungmenna af erlendum uppruna 760.000
Sumartónleikar Skálholtskirkju Óður til tómatsins 650.000
Borgarbókasafn Reykjavíkur Hvað er Ljóðaslamm? – undirbúningsnámskeið fyrir Ljóðaslamm Borgarbókasafnsins 550.000
Foreldrafélag Drengjakórs Rvík Samhljómur - The Boys are Singing II 500.000
Stelpur rokka!,félagasamtök Tónleikasmiðja Stelpur rokka! 420.000
Rekstrarfélagið GRÍMA ehf. Klippimyndir - samskeytingar – skúlptúr. Gæðastund fyrir börn með foreldrum sínum í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar 320.000
Amtsbókasafnið á Akureyri Vísindasmiðjur unga fólksins 200.000

Barnamenningarsjóður Íslands var stofnaður í tilefni aldarafmælis fullveldisins með ályktun Alþingis á hátíðarfundi 18. júlí 2018. Hlutverk sjóðsins er að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi. Í starfi sjóðsins er m.a. horft til áherslu menningarstefnu um samstarf stofnana, skóla, félagasamtaka og einstaklinga, ásamt því markmiði að jafna aðgengi barna og ungmenna að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag.

Í tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um eflingu barnamenningar fyrir árin 2024-2028 er gert ráð fyrir að „Barnamenningarsjóður Íslands, sem stofnaður var með þingsályktun nr. 32/148, verði varanlegur sjóður og njóti framlaga af fjárlögum, 120 millj. kr. á ári.“ 









Þetta vefsvæði byggir á Eplica