Einhyrningar og opinber stuðningur við rannsóknir og nýsköpun

27.10.2023

Fyrr á þessu ári var fyrirtækið Kerecis selt til danskra aðila fyrir um 1.3 milljarða dollara eða um 180 milljarða íslenskra króna og varð þannig fyrsti íslenski einhyrningurinn. Það hugtak varð til í Kísildalnum og er notað um sprotafyrirtæki sem seld eru fyrir meira en einn milljarð dollara. Hugtakið á væntanlega að gefa til kynna að hið ævintýralega hafi gerst – því eins og öll vita þá eru einhyrningar ekki til nema í þjóðtrú og ævintýrum.

  • Agust_hjortur_ingthorsson-1200x800px

 

180 milljarðar króna er tala sem flestir eiga erfitt með að tengja við og mig langar því að setja hana í samhengi við opinbert stuðningkerfi rannsókna og nýsköpunar. Guðmundur Fertram stofnandi Kerecis hefur í viðtölum vakið athygli á því að Kerecis hefði ekki náði þessum árangri ef ekki hefði verið fyrir opinberan stuðning. Fyrirtækið hlaust fyrst 1 m.kr. forverkefnisstyrk úr Tækniþróunarsjóði árið 2008 og hefur síðan hlotið 10 styrki úr sjóðnum að upphæð 300 m.kr. auk þess að fá 130 m.kr. úr Eurostars sem Tækniþróunarsjóður fjármagnar að hluta. Þá hefur fyrirtækið notið góðs af skattfrádrætti rannsókna- og þróunarverkefna sérstaklega á síðustu þremur árum þegar vöxtur þess hefur verið hvað mestur.

Samhengi söluverðmætis Kerecis við opinberan stuðning við rannsóknir og nýsköpun má setja fram á einfaldaðan máta með eftirfarandi hætti:


 
90 millj. kr. Opinber framlög til lykilsjóða 2004-2023
30 millj. kr. Opinber útgjöld vegna þátttöku í evrópsku rannsókna og menntasamstarfi 2004-2023
60 millj. kr. Opinber framlög til skattfrádráttar rannsókna og þróunarverkefna 2011-2023
180 millj. kr.     Heildarútgjöld hins opinberra til sjóða, evrópusamstarfs og skattfrádráttar á tímabilinu 2004 til 2023

Sjóðirnir sem hér er vísað til eru Rannsóknasjóður, Tækniþróunarsjóður, Innviðasjóður og Markáætlun en þær hafa verið nokkrar á tímabilinu. Evrópusamstarfið sem vísað er í eru þær áætlanir sem Ísland tekur þátt í á grundvelli EES samningsins og þar er rannsókna- og nýsköpunaráætlunin lang stærst en auk þess styðja mennta-, æskulýðs-, menningar- og kvikmyndaáætlanir ESB við vísindi og nýsköpun. Skattfrádráttur til fyrirtækja sem stunda rannsóknir og nýsköpun kom fyrst til framkvæmdar árið 2011 og því ná tölur ekki lengra aftur. Til að hafa samanburðinn raunhæfari voru opinber útgjöld uppreiknuð á verðlagi 2023 þegar Kerecis var selt.

Að eitt sprotafyrirtæki byggt á íslensku hugviti, þrautseigju og þorskroði geti orðið jafn verðmætt og opinber stuðningur við rannsóknir og nýsköpun á 20 ára tímabili er með ólíkindum. Af þessu má sjá hverju stuðningur við rannsóknir og þróun getur skilað í beinum efnahagslegum verðmætum. Hér er hér bara um eitt dæmi að ræða og opinber stuðningur er meiri ef teknar eru með fjárveitingar til háskóla sem sinna rannsóknum og hafa þjálfað fólkið sem hefur unnið hörðum höndum að því að búa til þessi verðmæti. 

Vissulega er hér um að ræða fyrsta einhyrninginn á Íslandi en dæmin eru miklu fleiri eins og fjallað verður um á árlegu Nýsköpunarþingi 26. október. Auk Rannís, standa Hugverkastofa, Íslandsstofa og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins að þinginu og er yfirskrift þess „Líf í lífvísindum“. Þar verða sjö framsækin fyrirtæki í lífvísindum til umfjöllunar og Nýsköpunarverðlaun Íslands verða veitt í 28. sinn en Kerecis hlaut þau verðlaun fyrir fimm árum. Framtíðin mun svo leiða það í ljós hvort fleiri einhyrningar muni birtast út úr íslensku nýsköpunarsamfélagi en jarðvegurinn fyrir þeim möguleika er klárlega til staðar í íslensku samfélagi.

Ágúst Hjörtur Ingþórsson, forstöðumaður Rannís, ritar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu fimmtudaginn 26. ágúst 2023.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica