Heimsókn háskóla-, iðnaðar og nýsköpunaráðherra

8.3.2022

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar heimsótti Rannís á dögunum og fræddist um fjölbreytta starfsemi stofnunarinnar.

Rannís er ein af undirstofnunum nýs ráðuneytis en hlutverk stofnunarinnar er að styðja við rannsóknir, nýsköpun, menntun og menningu. Áslaug Arna hitti starfsfólk og stjórnendur og kynnti sér sögu Rannís, vöxt og breytingarferli undanfarinna ára, auk þess sem farið var yfir bæði innlend og alþjóðleg verkefni. Einnig skoðaði ráðherra þau verkfæri sem Rannís hefur yfir að ráða til að koma í framkvæmd nokkrum af helstu stefnumálum sem fram koma í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar á málefnasviðum stofnunarinnar.

Rannís hefur umsjón með 29 innlendum sjóðum og tekur árlega á móti þúsundum umsókna til úthlutunar 22 milljarða króna. Þar eru stærstir Rannsóknasjóður og Tækniþróunarsjóður og endurgreiðsla rannsókna og þróunarkostnaðar hjá fyrirtækjum, en Rannís hefur einnig með höndum umsýslu sjóða eins og Listamannalauna , Þróunarsjóð námsgagna, Nýsköpunarsjóð námsmanna , Tónlistarsjóð og fleirum. Einnig sér Rannís um að kynna tækifæri og styrki úr norrænum og evrópskum samstarfsáætlunum, s.s. Horizon Europe , Erasmus+, Creative Europe , auk þess sem stofnunin skipuleggur fjölmarga viðburði til að vekja athygli á málaflokkum sínum, eins og Vísindavöku og Nýsköpunarþingi .

Sérstaka athygli ráðherra vakti metnaðarfullt Gagnatorg sem nú er í smíðum hjá Rannís, þar sem upplýsingar um styrki og úthlutanir munu verða aðgengilegar fyrir alla, en það verður opnað formlega í lok mars.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica