Hvaða áhrif hefur Brexit á þátttöku í Erasmus+?

4.2.2019

Bretland gengur úr Evrópusambandinu 29. mars 2019 en ekki er að fullu ljóst hvernig útgöngunni verður háttað. Eftir að útgöngusamningur bresku ríkisstjórnarinnar var felldur í þinginu þann 15. janúar hafa líkur aukist á því að Bretar fari úr sambandinu án samnings (svokallað hart Brexit). Af því tilefni hefur ESB gefið út áætlun um útgöngu án samnings sem snýr meðal annars að framkvæmd Erasmus+ eftir 29. mars. 

  • Erasmus-

Með yfirlýsingu sinni tryggir Evrópusambandið að einstaklingar frá Bretlandi og Evrópulöndum sem eru erlendis á vegum Erasmus+ þann 29. mars geti lokið dvöl sinni og fengið hana styrkta án þess að þurfa að snúa fyrr heim. Áætlað er að 14.000 manns frá löndum ESB séu við nám eða þjálfun í Bretlandi á þeim tímapunkti, ýmist í háskóla-, starfsmennta- eða æskulýðshluta Erasmus+. Nú á vormisseri eru 23 nemendur við íslenska háskóla í skiptinámi eða starfsþjálfun í Bretlandi á vegum Erasmus+, samkvæmt gögnum Landskrifstofu.

Evrópusambandið tryggir auk þess að breskar stofnanir og samtök sem hafa fengið Erasmus+ verkefni sín samþykkt fyrir 29. mars 2019 og undirritað samninga þess efnis haldi áfram að fá styrki sína greidda, svo lengi sem Bretland virði áfram fjárhagslegar skuldbindingar sínar gagnvart sambandinu.

Ekki liggur endanlega fyrir hvernig verður með Erasmus+ verkefni með breskri þátttöku, sem hafa ekki enn verið samþykkt. Bresk yfirvöld hafa gefið út sérstaka yfirlýsingu þar sem hvatt er til þess að senda inn umsóknir í Erasmus+ fyrir þá umsóknarfresti sem eru á döfinni. Þannig munu breskar stofnanir og samtök áfram eiga þess kost að taka fullan þátt í Erasmus+ ef svo fer að Bretar yfirgefi Evrópusambandið með samningi. Ef útgangan verður hins vegar án samnings mun breska ríkisstjórnin fjármagna þátttöku þeirra Breta sem fá umsóknir sínar samþykktar. Fjármögnun breskra yfirvalda nær eingöngu til þarlendra umsækjenda og ekki til aðila í öðrum löndum, eins og Íslandi.

Bretland er eftirsóttur áfangastaður fyrir íslenska þátttakendur í Erasmus+ og skipar sér í næstefsta sæti – á eftir Danmörku – yfir þau lönd sem Íslendingar hafa haldið til vegna náms, þjálfunar, kennslu eða sjálfboðastarfa frá árinu 2014. Breskir háskólar eru sérlega öflugir og raða sér ofar á árangurslista en háskólar í nokkru öðru Evrópulandi. Landskrifstofa Erasmus+ á Íslandi hvetur íslenska umsækjendur til að rækta áfram það mikilvæga samstarf sem þeir eiga við breskar stofnanir á sviði menntunar og æskulýðsmála en á sama tíma gera ráðstafanir ef svo fer að útgangan verður án samnings. Því mælum við eindregið með því að fjöldi samstarfsaðila í umsóknum með breskri aðild sé umfram lágmarksfjölda, því þannig geta verkefni áfram verið gjaldgeng jafnvel þótt breski þátttakandinn geti hugsanlega ekki tekið þátt lengur.

Mörgum spurningum er enn ósvarað en Landskrifstofa mun veita nánari upplýsingar um framvindu mála eftir fremsta megni þegar þær berast. Sett hefur verið upp sérstök undirsíða með spurningum og svörum sem tengjast Brexit og Erasmus+. Einnig geta umsækjendur og verkefnisstjórar sent fyrirspurnir beint til Landskrifstofunnar.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica