Rannís kynnir nám á Íslandi í Færeyjum

8.11.2023

Rannís tók þátt í kynningardegi sem haldinn var í Norræna húsinu í Þórshöfn í Færeyjum fyrir nemendur á lokaári í færeyskum framhaldsskólum. Vegleiðingastova Færeyja stóð fyrir viðburðinum og var þetta í tuttugasta sinn sem slíkur viðburður er haldinn. 

Kynntir voru ýmsir námsmöguleikar sem framhaldsskólanemendunum standa til boða að stúdentsprófi loknu í Færeyjum og í Danmörku. Þá voru fulltrúar frá AFS og Fulbright stofnuninni í Danmörku á staðnum og kynntu nám í Bandaríkjunum, læknanám í Póllandi var kynnt og farið yfir fjölbreytta námsmöguleika í Frakklandi og á Íslandi.

Rannís kynnti vefinn Study in Iceland og nám í íslenskum háskólum. Farið var yfir möguleika í menntaáætlunum Erasmus+ og Nordplus, hvernig útbúa megi rafræna ferilskrá í gegnum Europass og bent á þau ótalmörgu tækifæri sem ungt fólk hefur erlendis í gegnum Eurodesk. Færeyingar eru ekki enn þátttakendur í Erasmus+, en með því að stunda nám á Íslandi eiga færeyskir námsmenn möguleika á þátttöku til jafns við Íslendinga.

Allt að 500 nemendur frá öllum framhaldsskólum á eyjunum sóttu kynninguna og var mikið líf og fjör í húsinu.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica