Loftslagssjóður hefur úthlutað 165 milljónum króna til 32 verkefna í sinni fyrstu úthlutun

4.6.2020

Af því tilefni buðu Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Hildur Knútsdóttir, formaður stjórnar Loftslagssjóðs handhöfum styrkjanna til kaffispjalls í ráðuneytinu 3. júní sl.

Hlutverk Loftslagssjóðs er að styðja við nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála og verkefni sem lúta að kynningu og fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra: „Það eru tímamót að nú sé í fyrsta skipti verið að úthluta styrkjum úr Loftslagssjóði til fræðslu og nýsköpunar í loftslagsmálum og það er virkilega gaman að sjá hversu fjölbreytt og flott verkefnin eru. Með þessu leitum við lausna með nýsköpun og gefum hugmyndauðgi og framsýni byr undir báða vængi.

Að þessu sinni voru 10 nýsköpunarverkefni styrkt og 22 kynningar- og fræðsluverkefni á sviði loftslagsmála. Alls námu styrkumsóknir 1,3 milljörðum.

Hæstu einstöku framlögin námu tæpum tíu milljónum og voru það meðal annars nýsköpunarverkefni á vegum háskólanna.

  • Háskólinn í Reykjavík hlaut 9.990.000 fyrir aðlögun álrafgreiningarkers CCS með hermunarstuddri hönnun.
  • Landbúnaðarháskóli Íslands hlaut 9.975.207 kr. fyrir verkefni um áreiðanleika vistgerðarflokka til afmörkunar á framræstu landi.
  • Raunvísindastofnun Háskóla Íslands hlaut 9.861.730 kr. fyrir kolefnisbindingu frá stóriðju við strendur Íslands
  • Renata Stefanie Bade Barajas hlaut 9.759.990 kr. fyrir verkefnið GreenBytes, en markmið þess er að minnka matarsóun í Reykjavík.

Þetta er í fyrsta sinn sem úthlutað er úr Loftslagssjóði en umsóknarfrestur rann út þann 30. janúar sl. Alls bárust 203 gildar umsóknir og var heildarupphæð umsókna um 1,3 milljarðar. Sem fyrr segir voru 32 verkefni styrkt í þessari úthlutun eða um 16% umsókna.

Sjóðurinn heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðherra og er í umsjón Rannís.

Frétt og listi yfir styrkþegar á vef Rannís









Þetta vefsvæði byggir á Eplica