Háskóli Íslands hlýtur styrk úr HERA

13.12.2013

Katrín Anna Lund, dósent í ferðamálafræði og Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands eru þátttakendur í verkefninu  Arctic Encounters: Contemporary Travel / Writing in the European High North (ENCARC) sem hlaut nýverið styrk frá HERA - evrópska rannsóknarnetinu í hugvísindum (e. Humanities in the European Research Area). Alls bárust 593 umsóknir um rannsóknastyrki en einungis 18 verkefni voru valin til styrkúthlutunar og skipta þau á milli sín 18,5 milljónum evra, jafnvirði um þriggja milljarða króna.
 
Um er að ræða þriggja ára rannsóknarverkefni sem hefur það meginmarkmið að skoða aukið mikilvægi menningarferðamennsku og ferðaskrifa í mótun ímyndar Evrópusvæða á norðurslóðum. Í íslenska hluta verkefnisins verður lögð áhersla á Ísland sem stað á milli meginlands Evrópu og norðurslóða og verða þeir fjölmörgu þættir sem hafa haft áhrif á mótun ímyndar landsins sérstaklega skoðaðir.
 
Að baki HERA standa 19 rannsóknasjóðir frá 18 Evrópulöndum og er Rannís einn þeirra. Þetta er annað tímabilið sem HERA veitir styrki en kallað var eftir umsóknum árið 2009 og aftur árið 2012.  Að þessu sinni var kallað eftir umsóknum undir yfirskriftinni  Samfundir menninga (e. Cultural Encounters).
Þetta vefsvæði byggir á Eplica