Nýsköpunarverðlaun veitt í þriðja sinn á ráðstefnu um skapandi opinbera þjónustu

15.1.2014

Nýsköpunarverðlaun í opinberri þjónustu verða afhent í þriðja sinn föstudaginn 24. janúar 2014 kl. 11.45-14:00 á Grand hótel Reykjavík á ráðstefnu um nýsköpun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Félags forstöðumanna ríkisstofnana, Rannís, Nýsköpunarmiðstöðar Íslands og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands.

Yfir 40 verkefni voru tilnefnd til nýsköpunarverðlaunanna í ár


Ráðstefnan sem haldin er í tengslum við verðlaunaafhendinguna hefur yfirskriftina Skapandi opinber þjónusta: Stjórnun, skilvirkni, samstarf, viðurkenning.

Aðalfyrirlesari er Marga Pröhl framkvæmdastjóri European Institute of Public Administration, EIPA. sem ræðir aðferðir til að styðja við og styrkja nýsköpun í opinbera geiranum. Stofnunin veitir m.a. Evrópsku nýsköpunarverðlaunin í opinberri þjónustu, en á árinu 2013 voru um 230 verkefni frá 26 ríkjum og stofnunum ESB tilnefnd til verðlaunanna. 15 verkefni fengu sérstaka viðurkenningu, þar af voru tvö verkefni frá Íslandi.

Dagskrá ráðstefnunnar 24. janúar er eftirfarandi:

1. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra opnar fundinn og flytur ávarp.
2. Dr. Marga Pröhl framkvæmdastjóri European Institute of Public Administration EIPA:  How to strengthen, recognise and promote innovation in the public sector.
3. Dr. Hilmar Bragi Janusson forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands og fv. framkvæmdastjóri vöruþróunar og rannsóknastarfs hjá Össuri hf : Nýsköpun í opinberum rekstri - aukin skilvirkni í starfsemi stofnana.  
4. Stefán Eiríksson lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu og Valgerður Stefánsdóttir forstöðumaður Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra: Hlutverk stjórnanda að skapa nýsköpunarmenningu hjá stofnun.
5. Afhending nýsköpunarverðlauna. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Fundarstjóri: Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga

Að viðburðunum standa fjármála- og efnahagsráðuneytið, Félag forstöðumanna ríkisstofnana, Samband íslenskra sveitarfélaga, Félag stjórnenda á stjórnsýslu- og fjármálasviðum sveitarfélaga, Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Rannís. Samstarfsaðilar vilja með framtaki sínu draga athygli að nýsköpun og þróunarverkefnum í starfsemi hins opinbera og stuðla að nýsköpun í opinberum rekstri á Íslandi.

Hér er hægt að skrá sig á ráðstefnuna.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica