Tengslaráðstefna fyrir hugvísindarannsóknir á vegum HERA

20.10.2014

Þann 29. janúar 2015 verður haldin tengslaráðstefna í Tallinn undir heitinu Uses of the Past – Matchmaking Event á vegum HERA, sem er evrópskt samstarfsnet í hugvísindum. Markmiðið er að auðvelda leit að samstarfsaðilum. 

Lýst verður eftir umsóknum í næstu rannsóknaáætlun HERU, Uses of the Past, í byrjun janúar 2015 og er markmið viðburðarins að leiða saman hugsanlega samstarfsaðila sem stunda rannsóknir í hugvísindum. Áætlunin mun fjármagna verkefni á þessu sviði fyrir allt að 23 m. evra og skulu samstarfsaðilar koma frá minnst fjórum aðildarlöndum samstarfsnetsins.

Lokafrestur skráninga á tengslaráðstefnuna er 5. nóvember 2014 kl. 14:00 CET (Central European Time).

Samstarfslöndin eru Austurríki, Belgía, Króatía, Tékkland, Danmörk, Eistland, Finnland, Þýskaland, Ísland, Írland, Ítalía, Lettland, Litháen, Lúxemborg, Holland, Noregur, Pólland, Portúgal, Slóvenía, Spánn, Svíþjóð, Sviss og Bretland.

Þeir sem hafa áhuga á að sækja tengslaráðstefnuna þurfa að skrá sig á vefsíðu viðburðarins hér og senda inn stutta verkefnislýsingu og ferilskrá. Allar upplýsingar um þátttöku og skráningu má fá á vefsíðunni. Þátttakendur hafa kost á ferðastyrk allt að 350 evrum.

Athugið að áhugasamir geta að sjálfsögðu sótt um styrki úr áætluninni óháð þátttöku í tengslaráðstefnunni.

Upplýsingar um HERA samstarfsnetið og áætlanir á vegum þess má fá á heimasíðu netsins hér.

Rannís tekur þátt í HERA fyrir hönd Íslands og veitir Hulda Proppé nánari upplýsingar um áætlunina.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica