Samanburður á samkeppnishæfni þjóða

22.5.2014

Viðskiptaháskólinn IMD í Sviss hefur birt niðurstöður samanburðarrannsóknar um samkeppnishæfni þjóða.

Í síðustu rannsókn var Ísland í 31. sæti sem varla getur talist viðunandi árangur af 60 löndum í samanburðinum. Í ár er Ísland hinsvegar í 25. sæti sem er jákvæð en hægfara þróun. Önnur Norðurlönd eru í 5. til um það bil 10. sæti.

Viðskiptaráð Íslands og VÍB héldu fund þar sem niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar í morgun 22. maí og komu þar fram Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og  Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands og Hrafn Árnason, forstöðumaður stýringar eigna hjá Íslandssjóðum. Að loknum kynningum voru pallborðsumræður.

Rannís gerði stutta greiningu á útkomu skýrslunnar, sem hægt er að nálgast hér.

Röðun landa eftir vissulega erfitt viðfangsefni þar sem öll uppbygging og innviðir landa eru mismunandi. Þessi mæling er þó áhugaverð sérstaklega þar sem hún er birt ár eftir ár. Með niðurstöðurnar í hendi má gera áætlanir um áframhaldandi þróun í hverju landi. En Viðskiptaráð leggur til eftirfarandi:

  1. Flýta afnámi hafta
  2. Styðja við efnahagslegan stöðugleika með aukinni samfélagslegri sátt
  3. Greiða fyrir bæði innlendri og erlendri fjárfestingu
  4. Draga úr opinberum skuldum með rekstrarumbótum
  5. Opna fyrir alþjóðaviðskipti til að auka framleiðni í innlendum atvinnugreinum

Niðurstöður skýrslu IMD sýna að Ísland er misjafnlega í stakk búið í hinum fjórum helstu flokkum mælikvarða. En þeir eru:

  • Frammistaða hagkerfisins
  • Skilvirkni hins opinbera
  • Skilvirkni viðskiptalífsins
  • Gæði innviða

Þegar skoðuð eru gæði innviða kemur í ljós að Ísland er í 13 sæti  en í hinum þremur flokkunum er Ísland nálægt miðju meðal 60 þjóða.

Rannsóknir, þróun og nýsköpun er að finna í flokknum um Gæði innviða. Þessi mál halda Íslandi framarlega í samanburði við önnur lönd hvað varðar samkeppni.










Þetta vefsvæði byggir á Eplica