Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands 2024

18.1.2024

Heiðar Snær Ásgeirsson og Gonzalo Patricio Eldredge Arenas hljóta Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands 2024 fyrir verkefnið Umhverfisvænt sementlaust AlSiment steinlím.

  • Nyskopunarverdlaun-forseta-islands-2024-78-

Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands voru afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag.

Heiðar Snær Ásgeirsson meistaranemi í efnaverkfræði við DTU Tækniháskólann í Danmörku og Gonzalo Patricio Eldredge Arenas meistaranemi í jarðhitaverkfræði við Háskóla Íslands hlutu verðlaunin fyrir verkefnið Umhverfisvænt sementlaust AlSiment steinlím. Leiðbeinendur verkefnisins voru Sunna Ólafsdóttir Wallevik og Dr. Kristján Friðrik Alexandersson framkvæmdastjórar hjá Gerosion, ásamt þeim Dr. Jan Přikryl hjá Gerosion og Dr. Sigrúnu Nönnu Karlsdóttur, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands. Verðlaunin í ár er værðarvoð frá Prinsinum (Svavari Pétri Eysteinssyni), ullarteppi úr íslenskri ull. Framleitt af Varma.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin.

Verkefnið snerist um nýja tækni sem getur hjálpað byggingariðnaðinum að minnka kolefnislosun með bindingu á CO2. Í verkefninu er sýnt fram á fýsileika þess að nota AlSiment tækni eða svokallað sementslaust steinlím (AlSiment) sem bindiefni fyrir steypu. Efnasamsetning þessa efnis er að sumu leyti lík samsetningu sements, en er ríkara af ál- og kísiloxíðum. AlSiment er blandað saman við vatn, auk virkjunarefna á borð við basa og alkalísílikat. Úr verður bindiefni sem hægt er að blanda við sömu fylliefni og notuð eru í hefðbundna steypu.

Steypa er mest framleidda efnið á jörðinni og er bráðnauðsynleg áframhaldandi uppbyggingu samfélags okkar. Magnaðir eiginleikar og styrkur steypu eru í sementi og hvörfum þess við vatn að þakka. Því miður er framleiðsla sements með gríðarstórt kolefnisspor. Í framleiðsluferlinu losnar óhjákvæmilega CO2 við brennslu kalksteins, en auk þess er brennt mikið magn af kolum til að knýja þetta orkufreka ferli. Í heildina stafar 7-8% af allri losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum af framleiðslu sements.

Sementslaust steinlím er hægt að framleiða úr hliðarafurðum frá þungaiðnaði eins og stál- og álframleiðslu, en einnig frá náttúrulegum uppsprettum eins og jarðhitakísli og eldfjallaösku, sem eru sérstaklega aðgengileg á Íslandi. Í verkefninu var uppskrift af hellum með sama fylliefni og Steypustöðin notar venjulega þróuð og prófuð. Niðurstaðan var sú að það er raunhæft að nota AlSiment sementslaust steinlím í stað sements í helluframleiðslu.

Verkefnið snerist að auki um nýja tækni sem getur hjálpað byggingariðnaðinum að minnka kolefnislosun með bindingu á CO2 með því að nota AlSiment tækni. Á þeim þremur mánuðum sem verkefnið stóð, voru ýmsar uppskriftir prófaðar til að ákvarða hvaða breytur höfðu mest áhrif á styrktarþróun og hvort þær myndu ná kröfum fyrir hefðbundnar Portland-sements lausnir (35 MPa eftir 28 daga). Helstu niðurstöður voru þær að styrkur alkalíefna og CO2 höfðu mikil áhrif á þrýstistyrk, vinnanleika og útlit steypunnar. Magn CO2 sem bundið var í steypublöndurnar var 3,7 – 26 kg á rúmmetra sem skilaði 80 MPa til 60 MPa þrýstistyrk. Staðfest var að hægt er að fanga CO2 með AlSiment tækni sem gæti hjálpað byggingariðnaðinum að minnka kolefnislosun með því að bjóða upp á annan valkost en hefðbundið Portland sement sem stenst vel þær kröfur sem eru gerðar.


Fimm önnur verkefni fengu sérstaka viðurkenningu:

Nyskopunarverdlaun-forseta-islands-2024-60-

Greiningarkerfi fyrir heilsugæsluna – Einkenni.is
Verkefnið var unnið af Baldri Olsen og Kára Steini Hlífarssyni, nemum í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík og Magnúsi Friðriki Helgasyni, nema í Hugbúnaðarverkfræði við Háskólann í Reykjavík. Leiðbeinendur voru Hrafn Loftsson dósent og Stefán Ólafsson lektor við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík og Steindór Oddur Ellertsson læknir hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Nyskopunarverdlaun-forseta-islands-2024-62-

Nýsköpun fyrir snemmgreiningu brjóstakrabbabeina
Verkefnið var unnið af Magnúsi Gauta Úlfarssyni nema í lyfjafræði við Háskóla Íslands. Leiðbeinendur voru Margrét Þorsteinsdóttir prófessor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, Sigríður Klara Böðvarsdóttir forstöðumaður Lífvísindaseturs Háskóla Íslands, Kristrún Ýr Holm doktorsnemi við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, Finnur Freyr Eiríksson framkvæmdarstjóri ArcticMass og Christoph Borchers prófessor við McGill Háskóla í Kanada.

Nyskopunarverdlaun-forseta-islands-2024-64-

Rauntíma sjávarfalla- og sjávarhæðarspá við Ísland
Verkefnið var unnið af Rakel Maríu Ellingsen Óttarsdóttur, nema í hagnýttri stærðfræði við Háskóla Íslands. Leiðbeinendur voru Halldór Björnsson, Veðurstofu Íslands, Angel Ruiz Angulo, prófessor á verkfræði- og náttúruvísindasviði HÍ og Fannar Gíslason, Vegagerðinni.

Nyskopunarverdlaun-forseta-islands-2024-66-

Stjórn DNA metýlunar á ísóformnotkun í taugaþroska

Verkefnið var unnið af Katrínu Wang, læknanema við Háskóla Íslands. Leiðbeinendur voru Katrín Möller, nýdoktor við Læknadeild Háskóla Íslands og Hans Tómas Björnsson, yfirlæknir á Landspítala og prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands.

Nyskopunarverdlaun-forseta-islands-2024-70-

Viðbrögð við áreitni innan lögreglu

Verkefnið var unnið af Sólveigu Maríu Thomasdóttur nema í Hagnýtri jafnréttisfræði við Háskóla Íslands. Leiðbeinendur voru Finnborg Salome Steinþórsdóttir, aðjúnkt og Gyða Margrét Pétursdóttir, prófessor í kynjafræði við Stjórnmálafræðideild við Háskóla Íslands.

Lesa nánar um öll tilnefnd verkefni

Nyskopunarverdlaun-forseta-islands-2024-88-

Fulltrúar allra tilnefndra verkefna ásamt forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, Björgvini Stefáni Péturssyni, formanni stjórnar Nýsköpunarsjóðs námsmanna og Erlu Guðbjörgu Hallgrímsdóttur, fulltrúa nemenda í stjórn Nýsköpunarsjóðs námsmanna.

Nánar um Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands

Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands voru fyrst veitt árið 1996 og eru því nú veitt í 28 skipti. Í stjórn sjóðsins 2023-2026 sitja; Björgvin Stefán Pétursson, formaður, skipaður án tilnefningar, Sævar Helgi Bragason, tilnefndur af vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs, Ásdís Jóhannesdóttir, tilnefnd af Samtökum iðnaðarins, Alexandra Briem, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Erla Guðbjörg Hallgrímsdóttir, tilnefnd af Landssamtökum íslenskra stúdenta.

Árlega velur stjórn Nýsköpunarsjóðs námsmanna um 10 verkefni sem unnin eru á árinu sem úrvalsverkefni. Af þeim eru svo 4-6 verkefni valin sem öndvegisverkefni og hljóta þau tilnefningu til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Stjórn sjóðsins byggir mat sitt á verkefnum á mati fagráða sjóðsins, en þau eru sex, sjá nánar á vefsvæði sjóðsins.

  • Fagráð á sviði félagsvísinda, lögfræði og menntavísinda
  • Fagráð á sviði lífvísinda, klínískar rannsókna og lýðheilsu
  • Fagráð á sviði hugvísinda og lista
  • Fagráð á sviði náttúru- og umhverfisvísinda
  • Fagráð á sviði raunvísinda og stærðfræði
  • Fagráð á sviði verkfræði og tæknivísinda

Ljósmyndari: Arnaldur Halldórsson

Þetta vefsvæði byggir á Eplica