Nýtt Erasmus+ tímabil er hafið

26.3.2021

Mikil tímamót eru í Evrópusamstarfi á sviði mennta- og æskulýðsmála, en nýrri kynslóð Erasmus+ áætlunarinnar hefur verið ýtt úr vör eftir nokkuð langan aðdraganda. Umsækjendur hér á landi geta nú farið að kynna sér hvað ber hæst í Erasmus+ á tímabilinu 2021-2027 og auglýst hefur verið eftir umsóknum fyrir árið 2021. Áætlunin verður kynnt hér á landi á opnunarhátíð sem verður streymt frá Borgarleikhúsinu 15. apríl kl. 14:00-16:00.

  • It-all-starts

„Sú staðreynd að Erasmus+ fjármagnið hefur næstum tvöfaldast endurspeglar mikilvægi náms á öllum stigum og æskulýðsmála í Evrópu. Erasmus+ er einstök áætlun hvað varðar stærð, umfang og orðspor um allan heim.“ (Mariya Gabriel, framkvæmdastjóri nýsköpunar, menningar, menntunar og æskulýðsmála hjá Framkvæmdastjórn ESB.)

Þau sem þekkja til Erasmus+ tímabilsins sem er nýlokið munu finna ýmis kunnugleg stef í nýju áætluninni. Megináhersla er áfram lögð á tækifæri fyrir fólk á öllum aldri til að stunda nám og þjálfun í öðru landi. Sú reynsla hefur auðgað líf og opnað huga meira en 10 milljóna Evrópubúa allt frá árinu 1987 – en þetta eru einmitt einkunnarorð Erasmus+. Samstarfsverkefnin verða einnig á sínum stað og munu halda áfram að gera samtökum og stofnunum kleift að læra hvert af öðru þvert á landamæri.

Auk þess að veita tvöfalt meira fjármagni til styrkja en á fyrra tímabili – eða um 26 milljörðum evra – má greina nýjar áherslur í öllum verkefnaflokkum. Þannig er henni ætlað að vera enn aðgengilegri en áður og styðja sérstaklega við inngildingu á sviðum mennta- og æskulýðsmála. Sjónum verður beint að hlýnun jarðar með því að styðja verkefni sem hvetja til vistvænnar nálgunar í alþjóðastarfi. Áætlunin dregur lærdóm af heimsfaraldri Covid-19 og styrkir samtök og stofnanir í að nýta stafrænar aðferðir og bjóða upp á nám sem eflir færni til framtíðar. Hún hjálpar einnig fólki við að taka virkan þátt í samfélaginu og bætir lýðræðisfærni þess.

Starfsfólk Landskrifstofu Erasmus+ á Íslandi fagnar þessum þáttaskilum og hvetur þau sem vilja byggja brýr milli landa í æskulýðsstarfi eða hvers kyns námi að skoða vel nýjar upplýsingar um tækifærin sem í boði eru. Við hlökkum til að heyra af spennandi verkefnahugmyndum og taka á móti fjölbreyttum umsóknum frá ykkur.

Ath! Verið er að uppfæra heimasíðuna www.erasmusplus.is og verða umsóknareyðublöð aðgengileg fljótlega.

Nánari upplýsingar









Þetta vefsvæði byggir á Eplica