Rannís og Auðna undirrita samstarfsamning

14.9.2022

Auðna og Rannís, fyrir hönd Rannsóknasjóðs hafa skrifað undir samstarfssamning um „Master Class í vísindalegri nýsköpun“ fyrir styrkþega sjóðsins.

Auðna tæknitorg ehf. sérhæfir sig í stuðningi við vísindalega nýsköpun með þjálfun vísindamanna með það að markmiði að koma auga á tækifæri til nýsköpunar. Master Class í vísindalegri nýsköpun er sérsniðinn þriggja daga sprettur; sérfræðingar Auðnu greina nýsköpunargildi verkefna, aðstoða við hugverkavernd, viðskiptaþróun og stuðla að samstarfi við atvinnulífið.

Sérþekking og hugverkaréttur er uppistaðan í verðmætum nútíma atvinnulífs, í stað steypu, tækja og lausafjár. Hugverkaiðnaður hefur fest sig í sessi sem fjórða stoð útflutnings til viðbótar við orkusækinn iðnað, sjávarútveg og ferðaþjónustu. Öflugt vísindastarf skapar nýjustu þekkinguna og framtíðarverðmætin og er lykilþáttur í samkeppnishæfni samfélaga.

Rannís fagnar samstarfinu við Auðnu sem mun auðvelda vísindamönnum í fremstu röð enn frekar við að fylgja eftir tækifærum til nýsköpunar. 

Á myndinni eru Einar Mäntylä, framkvæmdastjóri Auðnu tæknitorgs ehf. og Ágúst Hjörtur Ingþórsson, forstöðumaður Rannís.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica