Rannsóknaverkefnið Snjallhljóðfæri: að skilja gervigreind 21. aldar gegnum skapandi tónlistartækni hlýtur Horizon 2020 styrk

9.12.2020

Um er að ræða rúmlega 300 milljóna íslenskra króna styrk úr Horizon 2020 rammaáætlun ESB fyrir rannsóknir og nýsköpun sem Rannís hefur umsjón með.

Styrkinn hlýtur dr. Þórhallur Magnússon, prófessor og deildarforseti tónlistardeildar Sussex háskóla í Englandi og rannsóknaprófessor við Listaháskóla Íslands. Um er að ræða hæsta styrk sem rannsóknaráð Evrópu (ERC) veitir einstaklingum sem þykja skara fram úr í störfum sínum. Verkefnið verður hýst hjá Listaháskóla Íslands og boðar tímamót fyrir skólann og rannsóknir á fræðasviði lista hér á landi.

Rannsóknin spannar svið gervigreindar, tónlistar og hugvísinda, og skapar alþjóðlegan vettvang til þverfaglegs samstarfs milli háskóla og menningarstofnana. Verkefnið er leitt af Þórhalli með þátttöku sérfræðinga á sviði heimspeki, hugrænna vísinda, tölvunarfræði og hljóðfæragerðar. Samstarfsaðilar verkefnisins hér á landi eru m.a. Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík og Mengi, en meðal erlendra samstarfsaðila eru Cambridge Digital Humanities, Sussex Humanities Lab og Ircam. Rannsóknin stendur í fimm ár og verða þrír doktorsnemar, tveir nýdoktorar og hjóðfærahönnuður ráðnir til verkefnisins.

Rannís hefur umsjón með innlendum samkeppnissjóðum á málefnasviðum stofnunarinnar og sér auk þess um stærstu samstarfsáætlanir Evrópusambandsins sem Ísland tekur þátt í, s.s. Horizon 2020 rannsókna og nýsköpunaráætlun ESB, Erasmus+ á sviði menntunar, æskulýðsstarfs og íþrótta og Creative Europe kvikmynda- og menningaráætlun ESB.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica