Rannsóknasjóður mikilvægur hluti af vaxandi opinberu styrkjakerfi fyrir þekkingarsamfélagið

31.1.2023

74 rannsóknaverkefni hlutu styrk úr Rannsóknasjóði árið 2023. Þar af voru 26 doktorsnemaverkefni og tíu nýdoktorsverkefni. Flest verkefnin eru til þriggja ára.

Þann 27. janúar síðastliðinn hélt Rannís úthlutunarfund Rannsóknasjóðs og við það tækifæri var tilkynnt hvaða rannsóknaverkefni hlytu styrk úr sjóðnum árið 2023. 

Alls voru það 74 rannsóknaverkefni sem hlutu styrk að þessu sinni, þar af voru tíu nýdoktorsstyrkir og og 26 doktorsnemastyrkir. Heildarupphæð styrkja er 3.438 milljónir króna til þriggja ára.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra opnaði fundinn og kom meðal annars inn á hvernig markmið Rannsóknasjóðs ríma við markmið ráðuneytis hennar um bætt lífsgæði og aukin tækifæri með það að leiðarljósi að gera hugvitið að stærstu útflutningsgrein Íslands.

Á fundinum lagði Ágúst Hjörtur Ingþórsson, forstöðumaður Rannís, áherslu á vöxt Rannsóknasjóðs undanfarin ár, faglega umgjörð sjóðsins, áherslu sjóðsins á að styðja við ungt vísindafólk til að stunda rannsóknir á Íslandi og að Rannsóknasjóður er hluti af vaxandi opinberu sem í heild styður við þekkingarsamfélagið og nýsköpunardrifið hagkerfi á Íslandi.

Einar Mäntylä, framkvæmdastjóri Auðnu Tæknitorgs, fjallaði um stuðning Auðnu Tæknitorgs við vísindasamfélagið með Masterclass námskeiðum. Þau gefa vísindafólki tækifæri til að setja rannsóknaverkefni sín í viðskiptalegt samhengi, auka líkur á hagnýtingu þeirra og tryggja hugverkavernd.

Þá fengu fundargestir að heyra frá Má Mássyni, prófessor í lyfjaefnafræði við Háskóla Íslands, og þeim ávinningi sem þátttaka hans í Masterclass námskeiðum Auðnu Tæknitorgs skilaði.

Einnig fengu fundargestir að heyra sögu Paolo Gargiulo, prófessors við HR og forstöðumanns Heilbrigðistækniseturs Landspítala, um nokkur rannsóknaverkefni sem hafa hlotið styrk úr Rannsóknasjóði og fleiri opinberum samkeppnissjóðum í umsjón Rannís. Þessir styrkir gerðu rannsóknahópi hans kleift að sækja styrki í alþjóðlega samkeppnissjóði.

Í lok fundar fór Lárus Thorlacius, formaður stjórnar Rannsóknasjóðs, yfir úthlutun sjóðsins árið 2023. Umsóknir voru 337 talsins og hlutu alls 74 verkefni styrk að þessu sinni. Öndvegisstyrkir voru fjórir, verkefnisstyrkir 34, nýdoktorsstyrkir 10 og 26 doktorsnemastyrkir. Árangurshlutfallið var 22%.

 Tegund Fjöldi umsókna   Fjöldi styrkja  Árangurshlutfall umsókna  Hlutfall af úthlutuðu fé
 Öndvegisstyrkir 20 4 20% 17,5% 
 Verkefnastyrkir 156 34 21,8%  56,1% 
 Nýdoktorastyrkir 50 10  20% 10,2%
 Doktorsstyrkir 111 26 23,4% 16,2%
 Samtals 337 74 22% 100%

Hér má skoða ítarlegri greiningu á úthlutun sjóðsins.

Hópur af fólki uppstillt fyrir myndatökuMynd: Styrkþegar Rannsóknasjóðs 2023 sem mættir voru á viðburðinn stilltu sér upp fyrir myndatöku.

Ljósmyndari: Arnaldur Halldórsson









Þetta vefsvæði byggir á Eplica