Rannsóknaverkefnið Svefnbyltingin hlýtur Horizon 2020 styrk

3.11.2020

Um er að ræða 2,5 milljarða króna styrk til fjögurra ára úr Horizon 2020 rammaáætlun ESB fyrir rannsóknir og nýsköpun sem Rannís hefur umsjón með hér á landi.

Svefnbyltingin er þverfaglegt og alþjóðlegt rannsókna- og þróunarverkefni leitt af Ernu Sif Arnardóttur, lektor við Háskólann í Reykjavík. Um er að ræða samstarfsverkefni vísindamanna við HR og íslensku fyrirtækjanna Nox Medical og Sidekick Health auk hátt í fjörtíu samstarfsaðila við evrópska háskóla, heilbrigðistsstofnanir og fyrirtæki auk háskóla í Ástralíu. 

Um helmingur styrksins verður nýttur til rannsókna hér á landi, meðal annars til að byggja upp öruggan gagnagrunn með niðurstöðum úr svefnmælingum á 30.000 einstaklingum sem safnað verður á Íslandi og víðsvegar um Evrópu.

Í dag, 3. nóvember klukkan 12.00 verður Erna Sif Arnardóttir með fyrirlestur í opnu streymi undir heitinu Svefnbyltingin: Vegferðin að Horizon 2020 Evrópustyrk. 

Slóð á fyrirlesturinn:  https://livestream.com/ru/svefnbyltingin

Rannís hefur umsjón með innlendum samkeppnissjóðum á málefnasviðum stofnunarinnar og sér auk þess um stærstu samstarfsáætlanir Evrópusambandsins sem Ísland tekur þátt í, s.s. Horizon 2020 rannsókna og nýsköpunaráætlun ESB, Erasmus+ á sviði menntunar, æskulýðsstarfs og íþrótta og Creative Europe kvikmynda- og menningaráætlun ESB.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica