Sérstakir styrkir til óperuverkefna úr Sviðslistasjóði 2024

19.3.2024

Umsóknarfrestur í Sviðslistasjóð vegna sérstakra styrkja til óperuverkefna rann út 23. febrúar 2024. Styrkirnir tengjast því að menningar- og viðskiptaráðuneytið vinnur nú að því að efla umgjörð óperustarfsemi á Íslandi samhliða stofnun nýrrar Þjóðaróperu í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Alls bárust 15 umsóknir og sótt var um ríflega 144 milljónir króna.

Sviðslistaráð  veitir 45 milljónum króna til 7 óperuverkefna leikárið 2024/25. Í upphaflegri úthlutun sviðslistasjóða fyrir árið 2024 voru tvö óperuverkefni sem fengu stuðning úr sviðslistasjóði og launasjóði sviðslistafólks. Sviðslistahópurinn Dáið er allt án drauma fékk 20 milljónir til að setja upp „Innantóm“ sem er ný íslensk ópera eftir Friðrik Margrétar-Guðmundarson og Kammeróperan fékk 3,3 milljónir fyrir „Dýravísur – tónleikhús fyrir leikskólabörn“.

Hæstu úthlutun núna fá Kammeróperan fyrir verkefnið Brúðkaup Fígarós og Pera Óperukollektíf vegna Óperudaga.
Menningarráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, kynnti úthlutunina við athöfn í Safnahúsinu mánudaginn 18. mars 2024.

Eftirtalin óperuverkefni hlutu sérstakan stuðning úr sviðslistasjóði:


Kammeróperan ehf.

  • Styrkur: 13.000.000 kr.
  • Sviðslistahópur: Kammeróperan
  • Forsvarsmaður: Jóna G Kolbrúnardóttir
  • Heiti verkefnis: Brúðkaup Fígarós í uppsetningu Kammeróperunnar

Lýsing: Kammeróperan setur upp hina sívinsælu gamanóperu Brúðkaup Fígarós eftir Mozart í fyrsta sinn á íslensku. Þó að óperan sé í grunnin kómísk þá eru samt samfélagslegir þættir sem tala til okkar í dag. Líkt og í upprunalegri útgáfu verksins spilar valdaójafnvægi milli stétta aðalhlutverk í söguþræðinum. Það er spennandi áskorun að yfirfæra þennan hluta verksins yfir á nútímasamfélag en Metoo-umræða síðustu ára hefur svo sannarlega dregið fram birtingarmyndir þess valdaójafnvægis sem ennþá ríkir.

Pera Óperukollektíf, félagasamtök

  • Styrkur: 10.000.000 kr.
  • Sviðslistahópur: ýmsir
  • Forsvarsmaður: Guðbjörg Sandholt Gísladóttir
  • Heiti verkefnis: Óperudagar

Lýsing: Óperudagar munu standa fyrir nokkrum uppfærslum á hátíðinni og leikárinu í ár, m.a. Kastala, Bláskeggs eftir Bartók; CIRCLE e. Finn Karlsson, Óperuhrolli í Öskjuhlíð og Gleðilega geðrofsleiknum eftir Guðmund Stein Gunnarsson.

Sigrún Gyða Sveinsdóttir

  • Styrkur: 8.500.000 kr.
  • Sviðslistahópur: Tvöfaldur túrbó í sælunni (TTS)
  • Forsvarsmaður: Sigrún Gyða Sveinsdóttir
  • Heiti verkefnis: Skjóta Ópera

Lýsing: Skjóta er ópera jafn löng fótboltaleik sem verður sýnd í Ásmundarsal ásamt innsetningu fyrstu tvær vikurnar í júní samhliða Listahátíð í Reykjavík. Verkið fjallar um fótbolta og loftslagsbreytingar og hvernig hálfleikur í fótbolta getur verið sem myndlíking fyrir tíma ákvarðanatöku í loftslagsmálum. Verkið verður sýnt fjórum sinnum yfir tvær helgar 7. til 15. júní með rými fyrir viðbótarsýningar.

Sviðslistahópurinn Óður

  • Styrkur: 7.500.000 kr.
  • Sviðslistahópur: Sviðslistahópurinn Óður
  • Forsvarsmaður: Sólveig Sigurðardóttir
  • Heiti verkefnis: Rakarinn frá Sevilla

Lýsing: Gamanóperan “Rakarinn frá Sevilla” eftir G. Rossini í uppfærslu sviðslistahópsins Óðs í nýrri íslenskri þýðingu í Þjóðleikhúskjallaranum.

Bergþóra Linda Ægisdóttir

  • Styrkur: 2.500.000 kr.
  • Sviðslistahópur: Ipsa Ensemble
  • Forsvarsmaður: Bergþóra Linda Ægisdóttir
  • Heiti verkefnis: IPSA DIXIT

Lýsing: Ipsa Dixit (ísl. Hún sjálf sagði) er nýtt kammer-leikhús-tónverk, heimspeki-ópera, eftir bandarísku söngkonuna og tónskáldið Kate Soper. Verkið var frumflutt árið 2016 og tilnefnt til Pulitzer verðlaunanna í tónlist árið 2017, The New Yorker kallaði það 21.aldar meistaraverk. Ruglingsleg mörk tónlistar, tungumáls og merkingar eru skoðuð á gáskafullann hátt. Hvernig tjáir maður sig af heilindum? Hvað er list eiginlega að reyna að segja og af hverju getur hún ekki bara sagt það hreint út?

Jóhann Guðmundur Jóhannsson

  • Styrkur: 2.000.000 kr.
  • Sviðslistahópur: Tunglfarar
  • Forsvarsmaður: Jóhann Guðmundur Jóhannsson
  • Heiti verkefnis: Tumi fer til tunglsins

Lýsing: „Tumi fer til tunglsins“ – tónlistarævintýri fyrir baritónsöngvara, barnakór, drengjasópran, sjö manna hljómsveit og sögumann. Í níu sönglögum og leiklesnum sögumannstexta í bundnu máli er rakin ævintýraferð stráksins Tuma á vit karlsins í tunglinu. Flutningstími: 40 mín. Tónlist og texti: Jóhann G. Jóhannsson. Myndskreytingar á tjaldi: Lilja Cardew.

Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir

  • Styrkur: 1.500.000 kr.
  • Sviðslistahópur: Ragnheiður Ingunn og Óperudagakvintettinn
  • Forsvarsmaður: Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir
  • Heiti verkefnis: Pierrot lunaire á Óperudögum 2024

Lýsing: Meistaraverkið „Pierrot lunaire“ eftir Arnold Schönberg verður flutt í Norðurljósum af syngjandi hljómsveitarstjóranum Ragnheiði Ingunni Jóhannsdóttur, ásamt kvintett skipuðum Rannveigu Mörtu Sarc fiðluleikara, Steineyju Sigurðardóttur sellóleikara, Kristínu Ýri Jónsdóttur flautuleikara, Rúnari Óskarssyni klarinettleikara og Helgu Bryndísi Magnúsdóttur píanóleikara.


Sviðslistaráð starfar samkvæmt ákvæði 15. gr laga nr. 165/2019 um sviðslistir. Hlutverk Sviðslistasjóðs er að efla íslenskar sviðslistir og standa straum af öðrum verkefnum sem falla undir hlutverk og starfsemi á sviði sviðslista með úthlutun fjár úr sjóðnum til atvinnuhópa.

Sviðslistaráð skipa: Hafliði Arngrímsson formaður, án tilnefningar, Pétur Ármannsson, tilnefndur af SAFAS og Þóra Einarsdóttir, tilnefnd af SAFAS.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica