Skráning þátttakenda og sýnenda á Vísindavöku

6.7.2018

Opnað hefur verið fyrir skráningu sýnenda og þátttakenda á Vísindavöku 2022. Frestur til að senda inn skráningu er til 26. ágúst.

  • Rannis-2013-109

Rannís hefur umsjón með Vísindavöku á Íslandi, en verkefnið er m.a. styrkt af Horizon Europe  rannsókna- og nýsköpunaráætlun ESB.  Stofnunun, háskólum og fyrirtækjum er nú boðið að skrá þátttöku sína. Hægt er að taka þátt sem sýnandi og/eða vísindamiðlari, senda okkur hugmynd sem gæti verið hluti af hátíðarhöldunum og að leggja til fræðimenn og rannsóknir eða verkefni sem áhugavert gæti verið að kynna fyrir almenningi. Mælt er með að stofnanir tilnefni einn tengilið við Vísindavöku. 

Allar nánari upplýsingar um Vísindavökuna má fá hjá Rannís í visindavaka@rannis.is 

Áhugasamir fyllið út ósk um þátttöku hér fyrir 26. ágúst nk. Vinsamlegast athugið að Rannís áskilur sér rétt til að velja eða hafna þátttakendum og stýra uppröðun eftir aðstöðu.

Athugið að Vísindavaka er ætluð til að kynna rannsóknir og nýsköpun á lifandi hátt en ekki að vera almenn kynning á skólum, stofnunum eða fyrirtækjum.

Annars vegar verður boðið upp á kynningar á sýningarbásum með þátttöku gesta og hins vegar vísindamiðlun á sviði og eru þátttakendur hvattir til að nota aðstöðuna til að koma rannsóknum sínum á framfæri við almenning á gagnvirkan og skemmtilegan hátt. Vísindavakan snýr nú aftur eftir nokkurt hlé og er von okkar að hún veki áhuga og athygli almennings jafnt sem fjölmiðla.

Ekkert gjald er tekið fyrir þátttöku eða sýningarpláss á Vísindavöku. Þátttakendur sem þess óska fá sýningarbás merktan nafni stofnunar, fyrirtækis eða háskóla. Í boði eru tilbúnir básar eða pláss fyrir eigin kynningarbása allt frá ca. 2 fm til 8 fm á þátttakanda/verkefni. Kynningarborð, 1 x 0,5 m að stærð fylgir með básum. Hægt er að leigja aukaborð af ýmsu tagi, stóla, bæklingastanda eða annað slíkt á kostnað sýnenda. Sjá nánar um aðföng á www.syning.is. Aðgangur verður að rafmagni og þráðlausu neti. Tilboða verður leitað til leigu á tæknibúnaði, svo sem stórum skjám.

Vísindavakan er haldin samtímis í helstu borgum Evrópu til heiðurs evrópsku vísindafólki. Markmiðið er að vekja áhuga almennings á vísindum og nýsköpun og kynna fólkið sem stendur að baki þeim. Þar fær fólk af öllum fræðasviðum tækifæri til að koma sér og rannsóknum sínum á framfæri á auðskiljanlegan og skemmtilegan hátt, enda á Vísindavakan að höfða til alls almennings, ekki síst til fjölskyldna, barna og ungmenna. Allar vísindagreinar eiga heima á Vísindavöku, hugvísindi jafnt sem raunvísindi. 

Hlökkum til góðrar samvinnu á Vísindavöku 2022!

Þetta vefsvæði byggir á Eplica