Vaxtarsproti ársins er Controlant

19.9.2022

Fyrirtækið Controlant hefur verið valið Vaxtarsproti ársins sem er viðurkenning fyrir öfluga uppbyggingu sprotafyrirtækis. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, afhenti Vaxtarsprotann í Flórunni í Grasagarðinum í Laugardal.

Controlant er alþjóðlegt fyrirtæki sem þjónustar mörg af stærstu lyfjafyrirtækjum heimsins. Hjá fyrirtækinu starfa 390 einstaklingar frá yfir 40 löndum. Velta fyrirtækisins jókst um 929% á milli áranna 2020 og 2021 þegar veltan fóru úr 865 milljónum króna í 8,9 milljarða króna.

Tvö önnur fyrirtæki, Sidekick Health og Coripharma hlutu einnig viðurkenningar. Sidekick Health sem sérhæfir sig í heilbrigðistækni hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir góðan vöxt í veltu. Velta fyrirtækisins jókst um 160% á milli ára, fór úr 250 milljónum króna í 650 milljónir króna milli 2020 og 2021. Coripharma hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir að velta í fyrsta sinn einum milljarði króna. Velta Coripharma fór í fyrsta skipti yfir 1 milljarð króna á síðasta ári, fór úr 888 milljónum króna árið 2020 í 1,3 milljarða króna 2021. Coripharma sérhæfir sig í framleiðslu og þróun lyfja fyrir önnur lyfjafyrirtæki um heim allan, ásamt því að þróa sín eigin lyf.

Vaxtarsprotinn er samstarfsverkefni Rannsóknamiðstöðvar Íslands (Rannís), Samtaka iðnaðarins, Samtaka sprotafyrirtækja og Háskólans í Reykjavík. Þetta er í 16. skiptið sem viðurkenningarnar eru veittar en tilgangur verkefnisins er að vekja athygli á góðum árangri sprotafyrirtækja í örum vexti og skapa þannig aukinn áhuga og skilning á uppbyggingarstarfi þessara fyrirtækja. Í dómnefnd voru Gísli Hjálmtýsson fyrir Háskólann í Reykjavík, Lýður Skúli Erlendsson fyrir Rannís, Kolbrún Hrafnkelsdóttir fyrir Samtök sprotafyrirtækja og Sigríður Mogensen fyrir Samtök iðnaðarins.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica