77 milljónum úthlutað úr þremur sjóðum menningarmála
Fjölmennur úthlutunarfundur þriggja styrktarsjóða menningarmála, (tónlistar, hljóðritunar og bókasafna) var haldin í Safnahúsinu við Hverfisgötu þann 14. júní.
Úthlutanir úr Tónlistarsjóði, Hljóðritasjóði og Bókasafnasjóði voru tilkynntar í vikunni og af því tilefni var öllum styrkhöfum, eða 132 verkefnisstjórum, ofangreindra sjóða boðið til viðburðar í Safnahúsinu við Hverfisgötu.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra opnaði fundinn en síðan fóru fulltrúar frá sjóðunum þremur yfir úthlutanir hvers sjóðs fyrir sig.
Að þessu sinni var alls 77 milljónum úthlutað úr sjóðunum þremur til 127 verkefna.
„Það er augljóslega mikil gróska í tónlistarsenunni á Íslandi eins og sjá má í fjölda umsókna í ár. Ég óska öllum styrkhöfum til hamingju og hlakka svo sannarlega til að heyra afrakstur þessa verkefna. Framtíð íslenskrar tónlistar er björt og ný heildarlöggjöf um tónlist mun marka heildarramma og búa tónlistinni hagstæð skilyrði,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.
Tónlistarsjóður veitti 38 milljónum til 65 verkefna og hæstu styrki eða tvær milljónir fengu Pera óperukollektif og Sinfóníuhljómsveit Suðurlands, þá fengu þrjár tónlistarhátíðir eina milljón hver. Um seinni úthlutun sjóðsins á þessu ári var að ræða.
Nánar um seinni úthlutun Tónlistarsjóðs
Hljóðritasjóður veitti 19 milljónum til 60 verkefna og hæstu styrki eða 800.000 kr. hvor fengu: Hærra/Guðmundur Kristinn Jónsson og Sigurður Guðmundsson. Um fyrri úthlutun sjóðsins var að ræða.
Nánar um fyrri úthlutun Hljóðritasjóðs
Mynd: Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningarmálaráðherra, ásamt styrkþegum Tónlistarsjóðs og Hljóðritasjóðs.
Úr bókasafnasjóði voru veittar 20 milljónir til sjö verkefna og hæsta styrkinn, sjö milljónir, fékk Landsbókasafn-Háskólabókasafn fyrir átaksverkefni við skráningu nafnmynda í Gegni.
„Verkefnin koma vítt og breitt af landinu og sum eru þess eðlis að þau nýtast bókasöfnum um allt land. Landsbókasafn - Háskólasafn fær hæsta styrkinn eða sjö milljónir króna fyrir átaksverkefni við skráningu nafnmynda í Gegni og er þar um að ræða mikilvægt verkefni sem mun gagnast öllum bókasöfnum landsins,“ sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Nánar um úthlutun Bókasafnasjóðs
Mynd: Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningarmálaráðherra, ásamt styrkþegum Bókasafnasjóðs
Að lokinni úthlutun og myndatöku var gestum boðið upp á kaffi og tækifæri til þessa að gleðjast og spjalla saman.
Tónlistarmaðurinn Matti Kallio lék á harmónikku fyrir gesti.