Aukaúthlutun úr Sviðslistasjóði 2022

14.6.2022

Aukaumsóknarfrestur í Sviðslistasjóð árið 2022 rann út 16. maí 2022, alls bárust 56 umsóknir, sótt var um ríflega 202 milljónir króna og að auki 460 mánuði til listamannalauna.

Sviðslistasjóður veitir 25 milljónum króna til 9 verkefna leikárið 2022/23 í þessari auka úthlutun og fylgja þeim 42 listamannalaunamánuðir úr launasjóði sviðslistafólks, 8 mánuðir voru veittir þremur einstaklingum utan sviðslistahópa.

Hæsti styrkur rennur til Selmu Reynisdóttir fyrir sviðslistahópinn Sálufélagar, 9,9 milljónir og 4 mánuðir. Í lýsingu umsækjanda segir: „Þungarokksballettinn ‘Satanvatnið' er nýtt frumsamið ballettverk sem leikur sér að þeim klisjum sem fyrirfinnast í þessum tveimur listformum; ballett og þungarokki.“

Aðrir styrkþegar úr sviðslistasjóði eru:

Sviðslistahópsins Óður, 2,5 milljónir og 12 mánuðir. Forsvarsmaður; Sólveig Sigurðardóttir. Í lýsingu umsækjanda segir: „Don Pasquale eftir G. Donizetti í uppsetningu Sviðslistahópsins Óðs í nýrri íslenskri þýðingu í Þjóðleikhúskjallaranum“.

Hákon Örn Helgason fær 3,5 milljónir og 7 mánuðir fyrir sviðslistahópinn Pabbastrákar. Í lýsingu umsækjanda segir: „Þegar strákar verða að mönnum sjá þeir pabba sinn í nýju ljósi. Pabbi er ástríkur en undarlegur. Hann segir ekki ég elska þig, hann segir farðu varlega. Pabbi kann ekki að knúsa rétt en hann kann reikningsnúmerið þitt utan að og leggur inn á þig fyrir nýjum, hlýjum fötum. Pabbastrákar er einlægt gamanverk þar sem föðurhlutverkið og þróun þess er skoðað. Hvernig elur karlmaður upp annan karlmann? Hvernig pabbar verðum við?“

Elefant, 3,5 milljónir og 6 mánuðir. Forsvarsmaður; Jónmundur Grétarsson. Í lýsingu umsækjanda segir: „Leikhópurinn Elefant vinnur nýja leikgerð byggða á Íslandsklukku HKL. Verkið vinna þau í samsköpun upp úr bókinni sjálfri og fyrri leikgerðum á henni. Leikhópurinn samanstendur af ungum íslenskum leikurum af blönduðum uppruna. Í gegnum Íslandsklukkuna rannsaka þau hvar þau staðsetja sig innan sögu lands og þjóðar, menningarlegan uppruna sinn, þjóðararf og samfélagsstöðu. Hver erum við, hvaðan komum við og hvert stefnum við?“

Andrea Gunnlaugsdóttir, 2 milljónir og 1 mánuður. Í lýsingu umsækjanda segir: „Ljóð Skýja er gjörningur í opinberu rými sem tekur áhorfendur inní hljóðheim í viðburði um enduruppgötvun á þeim skrautlegustu náttúrufyrirbærum andrúmsloftsins. Skýjunum. Með hljóð og leiðsögn í eyrunum og lítinn spegil við höndina eru þátttakendur leiddir í gegnum ferðalag á skýjum og verða vitni að himinsviðsmynd sem gæti átt erindi við okkur. Getum við enn horft til himins með sama ljóðræna augnaráði og áður, eða er tími okkar liðinn til að staldra við slíkan kveðskap?“

Hringleikur – sirkuslistafélag, 2 milljónir og 8 mánuðir. Forsvarsmaður; Eyrún Ævarsdóttir. Í lýsingu umsækjanda segir: „MegaWhat? Er sviðslistaupplifun fyrir fólk á breiðum aldri þar sem áhorfendur upplifa eðli náttúruaflanna í gegnum sirkuslistir. Sirkuslistafélagið Hringleikur setur upp staðbundna nýsirkussýningu sem byggir á tengslum sirkuslista og vísinda, innblásna af þeim kröftum sem búa í heiminum, í spennandi rými sem eykur áhrifamátt þessa samruna - gömlu rafstöð Reykvíkinga, Elliðaárstöð.“

Eva Halldóra Guðmundsdóttir, 980 þúsund og 2 mánuðir. Í lýsingu umsækjanda segir: „Verkið er leikið heimildaleikhús um gamla kerlingu sem rekur símaver í bílskúrnum heima hjá sér, þjónustar konur og vinnur við efla kynferðislega ánægju þeirra. Með húmor, nærgætni og forvitni munu Eva Halldóra og Viktoría Blöndal kanna þau svæði kvenleikans sem við reynum alla daga að fela. Með hjálp rannsókna vísindamanna viðfangsefninu og reynslu kvenna viljum við afhjúpa unaðinn.“

Allt fyrir listina slf. fyrir sviðslistahópinn Á meðan, 600 þúsund. Forsvarsmaður; Ragnar Ísleifur Bragason. Í lýsingu umsækjanda segir: „Komum hér” rannsakar gestabækur stéttarfélagsbústaða á Íslandi. Í bókunum má finna alls kyns frásagnir af uppákomum venjulegs fólks líkt og á samfélagsmiðlum, og þótt gestabækur veiti innsýn í dvölina þá vekja færslurnar líka upp vangaveltur; Hvað er satt og hvað er logið? Var potturinn svona næs? Var veðrið svona gott? Hvernig leið fólkinu í raun og veru? Leið þeim svona vel eða var þetta ef til vill ekki eins æðislegt og textinn ber vitni um?“

Áki Sebastian Frostason, 2 mánuðir. Í lýsingu umsækjanda segir: „Áframhaldandi þróun, Íslenskun og uppsetning á sviðsverkinu "The Mind-Body Problem: A Personal Philosophy". Verkið er margmiðlunarverk með sálfræðilegu þema fyrir einn flytjanda og er samið og flutt af Áka Frostasyni.“

Skipting úthlutunar eftir flokkum samkvæmt sviðslistaráði:

  • Tvö dansverk (Áki Sebastian með „The mind-body problem og Selma Reynisdóttir með „Satanvatnið“)
  • Eitt samsköpunarverk (Andrea Gunnlaugsdóttir með „Ljóð skýja“)
  • Eitt sirkusverk (Hringleikur með „MegaWhat?)
  • Tvö leikverk (Elefant með „Íslandsklukkan“ og Hákon Örn með „Pabbastrákar“)
  • Tvö leikritunarverk (Eva Halldóra Guðmundsdóttir með „10 ástæður til að fá það“ og Ragnar Ísleifur Bragason með „Gestabækur“).
  • Eitt óperuverkefni (Sviðslistahópurinn Óður með „Don Pasquale“).

Einstaklingar sem fá úthlutun úr launasjóði sviðslistafólks eru: Adolf Smári Unnarsson, 3 mánuðir (leikritun). Tyrfingur Tyrfingsson, 3 mánuðir (leikritun). Niels Thibaud Girerd, 2 mánuðir (Girerd leikhúsið. Playmo-Ópera. Playmo-Leikhús. Brúðuleikhús).

Næsti umsóknarfrestur í Sviðslistasjóð vegna leikársins 2023/24 er 3. október 2022.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica