Frá Arkhangelsk til Akureyrar

3.6.2019

Vísindavika norðurslóða (Arctic Science Summit Week 2019) var haldin í Arkhangelsk í Rússlandi 22.-30. maí síðastliðinn og tóku meira en 400 vísindamenn frá 26 löndum þátt í henni, þar af um 10 frá Íslandi.

  • RussiaToIceland

Vísindavika norðurslóða er árleg samkoma alþjóðlegra samtaka sem hafa það sameiginlegt að styðja og hvetja til rannsókna á norðurslóðum. Markmiðið með viðburðinum er að skapa tækifæri fyrir alþjóðlega samvinnu og samstarf á öllum sviðum norðurslóðarannsókna. 

Næsta vísindavika norðurslóða verður haldin á Akureyri dagana 27. mars – 2. apríl 2020. Vísindavikan er haldin í nánu samstarfi við ráðuneyti menntamála, umhverfismála og utanríkismála auk Akureyrarbæjar. Einnig er samstarf við stofnanir sem sinna sérstaklega málefnum norðurslóða. 

Á vísindaviku norðurslóða í Arkhangelsk afhenti Vladimir Pavlenko, formaður skipulagsnefndarinnar í Arkhangelsk, þeim Þorsteini Gunnarssyni frá Rannís og Federica Scarpa frá IASC, sem eru í forsvari fyrir Vísindavikuna á Akureyri, borða sem tákn um að nú tæki Akureyri við sem næsti ráðstefnustaður, eins og sjá má á mynd hér að ofan.

Utanríkisráðuneytið hefur samþykkt að að Vísindavika norðurslóða verði hluti af formennskuáætlun Íslands í Norðurskautsráðinu og að fundur embættismanna aðildarríkja Norðurskautsráðsins verði haldinn á Akureyri í tengslum við viðburðinn. Háskólinn á Akureyri skipuleggur vísindaviku norðurslóða í samstarfi við Rannís.

Dagskrá Vísindaviku norðurslóða skiptist í þrjá meginþætti, í fyrsta lagi fundi sem tengjast starfsemi IASC, í öðru lagi ráðstefnu um athuganir og vöktun á norðurslóðum (Arctic Observing Summit (AOS) og loks fundi hjá öðrum samtökum um málefni norðurslóða. 

Vísindavika norðurslóða er haldin á vegum Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar (International Arctic Science Committee - IASC) sem sameinar opinberar stofnanir og samtök á sviði norðurslóðavísinda frá 23 ríkjum og er langmikilvægasti alþjóðlegi samstarfsvettvangurinn fyrir rannsóknir á norðurslóðum. Auk stjórnar, þá skiptist starfsemi IASC á vinnuhópa á sviðum landrænna kerfa, freðhvolfs, hafvísinda, gufuhvolfs og mann- og félagsvísinda. Auk þess starfar vinnuhópur IASC um vöktun og athuganir á norðurslóðum (SAON) í samvinnu við Norðurskautsráðið.

IASC hefur áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu og gegnir mikilvægu hlutverki við miðlun upplýsinga frá vísindasamfélaginu til ráðsins um niðurstöður rannsókna á breytingum í náttúrufari norðurslóða.

Nánari upplýsingar veita: Þorsteinn Gunnarsson thorsteinn.gunnarsson@rannis.is og Federica Scarpa federica.scarpa@iasc.info

Þetta vefsvæði byggir á Eplica