Mentor hlýtur Vaxtasprotann

2.5.2008

Vaxtarsprotinn er viðurkenning sem veitt er á vegum Samtaka iðnaðarins, Rannsóknamiðstöðvar Íslands og Háskólans í Reykjavík. Tilgangurinn með veitingu hans er að vekja athygli á góðum árangri sprotafyrirtækja í örum vexti og skapa þannig aukinn áhuga og skilning á uppbyggingarstarfi þessara fyrirtækja. Það var Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, sem veitti Vilborgu Einarsdóttur framkvæmdastjóra og stofnanda Mentor ásamt öðrum starfmönnum fyrirtækisins Vaxtarsprotann 2008 að viðstöddum fulltrúum sprotafyrirtækja og stuðningsaðila atvinnulífsins í Grasagarðinum Laugardal við hátíðlega athöfn.

Alls hlutu fjögur sprotafyrirtæki viðurkenningu fyrir öflugan vöxt milli áranna 2006 og 2007, en viðurkenningunum var skipt í tvo flokka. Í "2. deild", þ.e. flokki sprotafyrirtækja með veltu á bilinu 10-100 milljónir hlutu fyrirtækin Kine ehf. og Valka ehf. viðurkenningu en í "1. deild", flokki sprotafyrirtækja með ársveltu á bilinu 100-1000 milljónir fengu fyrirtækin Mentor ehf. og Betware hf. viðurkenningu.  

Mentor ehf. er 20 manna fyrirtæki sem stofnað var árið 1990. Upplýsingakerfið Mentor.is er þróað á Íslandi en fyrirtækið starfar einnig í Svíþjóð undir nafninu InfoMentor P.O.D.B og í Danmörku undir nafninu InfoMentor. Áætlað er að opna starfstöð í Englandi vor/sumar 2008, enda eru mikil tækifæri að opnast á markaði í Englandi og ljóst að framtíðarvöxtur fyrirtæksins er erlendis.

Meginviðmið dómnefndar er hlutfallslegur vöxtur í veltu milli tveggja síðustu ára. Þá þarf fyrirtækið að uppfylla skilgreiningu um sprotafyrirtæki - þ.e. að verja meira en 10% af veltu í rannsókna- og þróunarkostnað að meðaltali fyrir bæði árin. Heildarvelta fyrra ársins þarf að vera yfir 10 milljónum en undir einum milljarði ísl. kr. Þá þarf frumkvöðullinn/arnir að vera staðar í fyrirtækinu og fyrirtækið má ekki vera að meiri hluta í eigu "stórfyrirtækis," fyrirtækis á aðallista kauphallar eða meðal 100 stærstu fyrirtækja landsins.  

Þetta er í annað skipti sem Vaxtarsprotinn er afhentur og verður hann veittur árlega. Viðurkenningarnar voru veittar í fyrsta sinn í tengslum við sýninguna Tækni og vit 2007. Vaxtarsprotinn er farandgripur úr áli og steini gefinn af Samtökum iðnaðarins, en auk hans fylgir skjöldur úr sömu efnum til eignar. Fyrirtækin fjögur sem hlutu viðurkenningar fengu auk þess sérstök viðurkenningarskjöl.

Um fyrirtækin

Mentor ehf. þjónar í dag 420 grunnskólum í Svíþjóð og 160 grunnskólum á Íslandi. Auk þess nota 120 leikskólar og 16 sveitarfélög á Íslandi lausnir frá Mentor auk 2 framhaldsskóla í Svíþjóð og Þróunarskóla í Danmörku. Í febrúar tók fyrsti enski skólinn Mentor kerfið í notkun en það er Holmwood House Preparatory School í Essex. Þetta er þykir mikil viðurkenning fyrir Mentor enda eru enskir skólar í fremstu röð í heiminum er kemur að tölvuvæðingu í skólastarfi. Tækifæri Mentors á erlendum markaði byggir á sterkri stöðu íslenska skólakerfisins. Íslenskir skólar eru mjög framarlega er kemur að tölvuvæðingu og tölvunotkun auk þess sem netnotkun foreldra er með því mesta sem þekkist í heiminum. Íslenskir skólastjórnendur og kennarar eru kröfuharðir notendur sem gera miklar kröfur til Mentors varðandi hönnun, einfaldleika og notagildis. Afrakstur þróunar fyrir íslenska skóla skilar Mentor.is kerfinu meðal fremstu kerfa í Evrópu er kemur að upplýsingakerfi fyrir skóla. Hjá Mentor starfar kraftmikið og metnaðarfullt starfsfólk með menntun á sviði kennslu, hugbúnaðargerðar og hönnunar. Sumarið 2007 yfirtók Mentor, með þátttöku Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, sænska fyrirtækið P.O.D.B. Í Svíþjóð starfar fyrirtækið nú undir nafninu InfoMentor P.O.D.B. Fyrirtækið er þekkt fyrir ráðgjöf og námskeið í gæðastjórnun og öllu er við kemur "utveklingssamtalet" í sænskum skólum. Stjórnendur Mentor hafa í samstarfi við starfsmenn sína bæði á Íslandi og erlendis mótað sér metnaðarfulla framtíðarsýn til ársins 2012 að vera eitt virtasta fyrirtæki í Evrópu á sviði upplýsingakerfa fyrir skóla með áherslu á einstaklingsmiðað nám, gæðastjórnun og skólaþróun. Það er ástæða til að benda á mikilvægi samstarfs við viðskiptavini, í þessu tilfelli skólastjórnendur og skólayfirvöld þegar svona fyrirtæki er að hefja sín fyrstu skref. "Mentor er vel að þessari viðurkenningu komin, enda er fyrirtækið frábært dæmi um hvernig byggja má öflugt og ört vaxandi fyrirtæki á þekkingu, þróun og metnaði um að vera í fremstu röð" segir Davíð Lúðvíksson, formaður dómnefndar Vaxtarsprotans. Hann sat í dómnefnd fyrir hönd Samtaka iðnaðarins en auk hans voru Snæbjörn Kristjánsson frá Rannsóknamiðstöð Íslands og Páll Kr. Pálsson fulltrúi Háskólans í Reykjavík.

Kine ehf. var stofnað 1996 af þremur verkfræðingum sem starfað höfðu saman á Landspítalanum og við Háskóla Íslands. Fyrirtækið vinnur með tæknilausnir og hugbúnað á sviði hreyfigreiningar sem nýtast við rannsóknir, sjúkdómsgreiningar, endurhæfingu og í vaxandi mæli við hreyfi- og álagsgreiningu á íþróttafólki. Hjá fyrirtækinu starfa 7 starfsmenn í föstu starfi, en framleiðsla byggir að nokkru á undirverktökum.

Valka ehf. var stofnað 2003 af Helga Hjálmarssyni, verkfræðingi. Fyrirtækið sérhæfir sig í sjálfvirkum lausnum fyrir matvælaframleiðslu með áherslu á gæði, nýtingu og hærra afurðarverð. Fyrirtækið hefur þróað búnað til pökkunar og vinnslu og hefur nýlega kynnt nýja kynslóð flokkunarbúnaðar fyrir fiskafurðir. Hjá fyrirtækinu starfa í dag 10 manns.

Betware hf. á langa sögu að baki í leikja- og happdrættislausnum sem rekja má til ársins 1996. Fyrirtækið er með höfuðstöðvar á Íslandi, en er auk þess með starfsstöðvar í Danmörku, Kanada og Póllandi. Fyrirtækið hefur þróað meira en 100 leiki á breiðu sviði fyrir notendur á Internetinu. Hjá fyrirtækinu starfa í dag um 45 manns á Íslandi og 25 erlendis.  









Þetta vefsvæði byggir á Eplica