Úthlutun úr markáætlun um öndvegissetur og klasa
Stjórn Rannsóknasjóðs hefur úthlutað styrkjum úr nýrri markáætlun um öndvegissetur og klasa og falið Rannís að ganga til samninga við eftirtalin verkefni til sjö ára (2009-2015):
Alþjóðlegur rannsóknarklasi í jarðhita
Verkefnisstjóri: Sigurður M. Garðarsson
Styrkur 2009 nemur allt að 70 millj. kr.
Sjá verkefnisslýsingu hér.
Vitvélasetur Íslands
Verkefnisstjóri: Kristinn R. Þórisson
Styrkur 2009 nemur allt að 55 millj. kr.
Sjá verkefnisslýsingu hér.
Öndvegissetur í jafnréttis- og margbreytileikarannsóknum
Verkefnisstjóri: Irma Erlingsdóttir
Styrkur 2009 allt að 35 millj. kr.
Sjá verkefnisslýsingu hér.
Úthlutun er bundin því að mótframlag og virkt samstarf milli ólíkra aðila verði staðfest í samningi.
Framhaldsstyrkir eru enn fremur háðir framvindu ásamt ítarlegu mati erlendra sérfræðinga á verkefnunum eftir 3 ár.
Á grundvelli stefnumörkunar Vísinda- og tækniráðs á haustfundi ráðsins í desember 2007 var hrint af stað nýrri markáætlun 2009-2015. Á vegum starfsnefnda ráðsins og Rannís var málið undirbúið og í apríl 2008 var auglýst eftir hugmyndum í áætlunina. Alls bárust 82 hugmyndir og fengu tíu þeirra brautargengi yfir á seinna þrep.
Við undirbúning úthlutunar fór sérskipað fagráð sérfræðinga úr fagráðum Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs yfir fullbúnar umsóknir með tilliti til áherslna Vísinda- og tækniráðs og markmiða áætlunarinnar. Kallað var eftir umsögnum erlendra sérfræðinga sem voru lagðar til grundvallar faglegu mati.
Með vísan til 9. gr. laga nr. 3/2003 um opinberan stuðning við vísindarannsóknir fól menntamálaráðherra stjórn Rannsóknasjóðs að úthluta úr markáætluninni. Við úthlutun miðaði stjórnin við mat hins sérskipaða fagráðs og áherslur Vísinda- og tækniráðs varðandi markáætlunina. Þar má nefna mikilvægi markáætlunar fyrir þróun þekkingar og samkeppnisstöðu Íslands og enn fremur áhersluna á alþjóðlegt samstarf, nýnæmi í rannsóknasamstarfi og nýsköpun.