Formleg opnun Kínversk-norrænu norðurslóðamiðstöðvarinnar

5.1.2014

Þann 10. desember síðastliðinn skrifuðu forsvarsmenn sex stofnana á Norðurlöndum undir samstarfssamning við Heimskautastofnun Kína (Polar Research Institute of China) og þrjár aðrar kínverskar stofnanir um stofnun Kínversk-norrænnar norðurslóðamiðstöðvar (KNN).

Undirritun samningsins fór fram við formlega opnun miðstöðvarinnar í Shanghai en hana sóttu aðilar frá opinberum stofnunum í Kína og frá Norðurlöndunum, auk fræðimanna sem stunda norðurslóðarannsóknir. Hallgrímur Jónasson, forstöðumaður Rannís tók þátt í opnunarathöfninni og undirritaði fyrrgreindan samning fyrir hönd Rannís. Þá flutti Stefán Skjaldarson, sendiherra Íslands í Kína, ávarp við athöfnina.

Hlutverk nýrrar miðstöðvar er að efla rannsóknasamstarf með það fyrir augum að auka vitund, skilning og þekkingu á norðurslóðum og hnattrænum áhrifum breytinga á norðurslóðum. Auk þess mun miðstöðin stuðla að samvinnu tengdri sjálfbærri þróun á norðurslóðum og þróun Kína í hnattrænu samhengi. Þannig verður sjónum beint að norðurslóðum og málefnum þeirra á heimsvísu og munu rannsóknir meðal annars snúast um:

  1. loftslagsbreytingar á norðurslóðum og áhrif þeirra,
  2. auðlindir á norðurslóðum, flutninga og efnahagslega samvinnu,
  3. stefnumótun og lagasetningar er varða norðurslóðir.

Samvinnan á grundvelli KNN mun fara fram með: sameiginlegum rannsóknaverkefnum; þróun á samstarfsnetum og nýjum samstarfssviðum um norðurslóðarannsóknir sem skapi tækifæri fyrir kínverska og norræna fræðimenn þannig að þeir geti unnið að styrktum rannsóknaverkefnum; reglulegum ráðstefnum, þ.m.t. „China-Nordic Arctic Cooperation Symposium” og að lokum með miðlun á upplýsingum og greiðari menningarsamskiptum Kína og Norðurlandanna í tengslum við norðurslóðir.

Í tengslum við KNN starfar ráðgjafanefnd sem samanstendur af forsvarsmönnum áðurnefndra stofnana. Eftir undirritun samningsins hittist nefndin í fyrsta sinn og ræddi hvernig starfsemi miðstöðvarinnar yrði háttað og áform á árinu 2014. Þar var m.a. ákveðið að „China-Nordic Arctic Cooperation Symposium“ yrði haldið á Akureyri á árinu.

Eftirfarandi aðilar standa að stofnun Kínversk-norrænu norðurslóðamiðstöðvarinnar:

Stofnanir á Norðurlöndunum

  • Arctic Center of the University of Lapland (Finnland)
  • Fridtjof Nansen Institute (Noregur)
  • Rannsóknamiðstöð Íslands (Ísland)
  • Nordic Institute of Asian Studies (Danmörk)
  • Norwegian Polar Institute (Noregur)
  • Swedish Polar Research Secretariat (Svíþjóð)

Kínverskar stofnanir

  • Center for Polar and Oceanic Studies, Tongji University
  • Research Institute of Polar Law and Politics, Ocean University of China
  • Shanghai Institutes of International Studies            
  • Strategic Studies Division, Polar Research Institute of China








Þetta vefsvæði byggir á Eplica