Grunnskóli Bolungarvíkur hlýtur Evrópuverðlaun eTwinning

7.5.2015

Verkefnið Art Connects Us hlýtur sérstök Evrópuverðlaun sem afhent eru í Brussel þann 7. maí, en verkefnið var unnið af Grunnskóla Bolungarvíkur.

Kennari við Grunnskóla Bolungarvíkur, Zofia Marciniak, mun taka við sérstökum Evrópuverðlaunum eTwinning í Brussel þann 7. maí, fyrir verkefni Art Connects Us, sem hún vann ásamt skólum frá Póllandi, Slóveníu, Tyrklandi, Spáni og Frakklandi. Verkefnið hlýtur annað sætið í Evrópuverðlaunum eTwinning fyrir bestu eTwinning verkefni síðasta skólaárs, í flokki 4-11 ára nemenda. 133 verkefni voru skráð í keppnina og voru vinningsverkefnin valin af dómnefnd sérfræðinga allstaðar að úr Evrópu. Hægt er að nálgast upplýsingar um verðlaunin og vinningsverkefnin hér.

Eins og titillinn gefur til kynna fjallar verkefnið um listina í víðu samhengi. Í gegnum listsköpun, listasögu og fleira tengjast fjöldi greina saman,svo sem listir, saga, tónlist, dans, ritlist, upplýsingatækni og enska. Nánari upplýsingar um verkefni Grunnskólans í Bolungarvík hér.

Zofia og nemandi úr skólanum taka á móti viðurkenningunni með félögum sínum úr verkefninu á verðlaunahátíð í Brussel þann 7. maí. Verðlaunin eru mikill heiður fyrir Ísland og sérstaklega fyrir nemendur og kennara Grunnskóla Bolungarvíkur. Bein útsending verður frá athöfninni á þessari slóð, sem hefst kl. 16:30 að íslenskum tíma.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica