Skaginn hlýtur Nýsköpunarverðlaun Íslands 2017
Fyrirtækið Skaginn hf. hlaut Nýsköpunarverðlaun Íslands 2017 sem afhent voru á Nýsköpunarþingi í morgun. Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skagans, veitti verðlaununum viðtöku úr hendi Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Nýsköpunarþingið var haldið á Grand Hótel Reykjavík undir yfirskriftinni Draumaland nýsköpunar.
Skaginn hefur undanfarin ár verið leiðandi fyrirtæki í nýsköpun í matvælaiðnaðinum og þá sérstaklega í sjávariðnaði. Fyrirtækið byggir á sterkum þekkingargrunni og virku samstarfi við önnur fyrirtæki og rannsóknastofnanir. Undanfarin ár hefur fyrirtækið náð góðri fótfestu á markaði sem hefur skapast vegna nýrra lausna sem fyrirtækið hefur sett á markað. Lausnir Skagans byggja á mikilli sjálfvirkni með áherslu á bætt gæði og nýtingu afurðar auk þess sem hagkvæmar og umhverfisvænar kæli-, pökkunar- og flutningslausnir eru hafðar að leiðarljósi. Hjá fyrirtækinu starfa um 90 manns við hönnun, þróun og framleiðslu.
Það er mat dómnefndar að Skaginn sé fyrirtæki sem hefur sýnt árangur á markaði með framúrskarandi nýsköpun að leiðarljósi og er líklegt til að halda áfram á þeirri braut í framtíðinni.
Nýsköpunarverðlaun Íslands
Nýsköpunarverðlaun Íslands eru veitt af Rannís, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, til fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr í þróun nýrrar vöru eða þjónustu, sem byggð er á rannsóknar- og nýsköpunarstarfi og náð hefur árangri á markaði. Tilgangur verðlaunanna er að vekja athygli á þeim mikilvægu tengslum sem eru á milli rannsókna og þekkingaröflunar og aukinnar verðmætasköpunar í atvinnulífinu. Verðlaunagripurinn er stytta af frjósemisgoðinu Frey eftir Hallstein Sigurðsson myndhöggvara.
Við val á verðlaunahafa er litið til þess hvort um sé að ræða nýtt sprotafyrirtæki, hvort það sé byggt á nýskapandi tækni og hugmynd og sé kröfuhart á þekkingu. Þá er lagt mat á virðisauka afurða og hvort fyrirtækið hafi náð árangri á markaði. Metið er hvort líkur séu á að fyrirtækið haldi velli og hvort stjórnun nýsköpunar sé til eftirbreytni. Að lokum er metið hvort fyrirtækið sé hvatning fyrir aðra að feta sömu slóð.
Efni Nýsköpunarþings 2017
Kynnt var glæný úttekt á nýsköpunarumhverfinu á Íslandi að fyrirmynd MIT tækniháskólans í Boston. MIT hefur þróað frumkvöðlahraðal fyrir landsvæði sem kallaður er REAP (Regional Entrepreneurship Acceleration Program) og miðar að því að bæta umhverfi frumkvöðlastarfs. Ísland tekur þátt með því að hrinda í framkvæmd aðgerðum sem styrkja umhverfið og skapa grunn fyrir öflugan og nýsköpunardrifinn frumkvöðlageira. Slík vinna ætti að leiða til fjölgunar á íslenskum þekkingarfyrirtækjum sem eru samkeppnisfær á alþjóðavísu. Samstarfinu við MIT var ýtt úr vör síðastliðið haust af Háskólanum í Reykjavík og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.