Tvö sprotafyrirtæki fá öndvegisstyrk Tækniþróunarsjóðs

26.1.2017

Í samræmi við nýja stefnumótun Tækniþróunarsjóðs hefur stjórn sjóðsins ákveðið að úthluta tveimur sprotafyrirtækjum úr flokknum Sprettur öndvegisstyrk upp á 70 m. kr.

Styrkurinn ætlaður félögum með mikla möguleika á hröðum vexti

Sprettur er öndvegisstyrkur sem er ætlaður til að styrkja félög með með mikla möguleika á hröðum vexti innan næstu fimm ára. Félögin þurfa á móti að sýna fram á hlutafjáraukningu sem nemur jafnhárri upphæð og styrkurinn er.

Félögin eru Oculis ehf. og Lauf Forks ehf. Um félögin: 

Oculis ehf.

Oculis efh. er nýsköpunarfyrirtæki sem vinnur að þróun nýrra augnlyfja byggt á einkaleyfavarinni tækni félagsins. Augndroparnir hafa þá sérstöðu fram yfir venjulega augndropa að koma lyfjum til bakhluta augans og geta þannig komið í staðinn fyrir lyfjagjöf með sprautunál inn í augað. Tækni Oculis gefur auk þess umtalsvert lengri virkni á yfirborði augans en mögulegt er með hefðbundnum augndropum. Það lyf sem lengst er komið í þróun hjá Oculis nefnist DexNP og inniheldur dexamethasone í lyfjaferju Oculis. Unnið er því að rannsaka og skrá lyfið við tveimur sjúkdómum, sjónhimnubjúgi í sykursýki og bólgum eftir augasteinsskipti.

Oculis á rætur að rekja til Háskóla Íslands og Landspítalans, en félagið og verkefni tengt því hafa á undanförnum misserum fengið styrki frá bæði Tækniþróunarsjóði og Rannsóknarsjóði. Oculis lauk við fjármögnun á árinu 2016 sem leidd var af Brunni vaxtarsjóði og Silfurberg ehf.

Sjá nánar

Lauf

Lauf Forks, eða Lauf , er hátæknifyrirtæki í hönnun, framleiðslu og sölu á reiðhjólaíhlutum. Fyrirtækið var stofnað fyrir tilstuðlan styrks frá Tækniþróunarsjóði árið 2011, í kringum hugmynd að nýrri gerð reiðhjólagaffals. Gaffallinn kom fyrst á markað seinni hluta árs 2014. Árið 2016 voru afhentir yfir tvö þúsund Lauf gafflar um allan heim. Með veglegum stuðningi Tækniþróunarsjóðs mun fyrirtækið á næstu misserum þróa nýjar vörur sem auka vöruframboð og tekjur Lauf til muna.

Sjá nánar

Nánari upplýsingar veitir Sigurður Björnsson , sviðstjóri á rannsókna- og nýsköpunarsviði Rannís.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica