3,2 milljarða króna styrkir hafa fallið Íslendingum í skaut úr rannsókna- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins

25.2.2016

Fjölmargar íslenskir aðilar hafa nýtt sér þau tækifæri sem í boði eru í rannsókna- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins, Horizon 2020. Styrkir sem íslensk fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar hafa hlotið í gegnum áætlunina á undanförnum tveimur árum, eða frá upphafi hennar árið 2014, nema nú rúmum 22 milljónum evra eða um 3,2 milljörðum króna.

Horizon 2020 er ætlað að styðja við rannsóknir og nýsköpun í Evrópu, skapa störf og fjármagna rannsóknir sem skapa hagvöxt og taka á margskonar samfélagslegum áskorunum. Úthlutað er úr sjóðum á grundvelli samkeppni og sýna tölurnar fram á góðan árangur Íslendinga. Með þátttöku í sjóðunum fæst bæði fé til rannsókna og nýsköpunar hérlendis auk þess að styrkt eru tengsl íslenskra stofnana og fyrirtækja við erlenda samstarfsaðila.

Þeir aðilar sem fengið hafa styrk hérlendis eru meðal annarra HS-orka, Íslenskar orkurannsóknir, Landsvirkjun, Georg, Háskóli Íslands, Matís, Markamar, JGT Tech, Cri ehf., Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Akureyri, Veðurstofa Íslands, Landspítalinn, Lipid Pharmaceuticals, Íslensk Nýorka, Mentis Cura, Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, Oxymap, Marel, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Icelandic Seafood International, Hampiðjan, Nox Medical og Polar togbúnaður.

Rannís sér um áætlunina á Íslandi og veitir íslenskum umsækjendum aðstoð og upplýsingar auk þess að standa fyrir kynningum og námskeiðum í umsóknagerð. Upplýsingar um Horizon 2020 á vefsíðu Rannís.

Nánari upplýsingar veitir Kristmundur Þór Ólafsson , sérfræðingur á alþjóðasviði.

Horizon 2020 er langstærsta og umfangsmesta rannsóknaáætlun ESB hingað til og eru Íslendingar fullgildir aðilar að henni. Áætlunin gildir 2014 til 2020 og er heildarfjármagn hennar nærri 80 milljarðar evra. Endurspeglar hún grundvallarmarkmið stefnu ESB til 2020 um að styðja sjálfbæran hagvöxt í Evrópu. 

Þetta vefsvæði byggir á Eplica