Aukin útgjöld til rannsókna og þróunarstarfs á Íslandi

21.1.2021

Útgjöld til rannsókna og þróunar á árinu 2019 hækka um 17% frá árinu 2018, 12 milljarða aukning á útgjöldum fyrirtækja til rannsókna- og þróunarstarfs og 2ja milljarða aukning hjá háskólum. Telja má víst að hér séu áhrif skattfrádráttar rannsókna- og þróunarverkefna að hafa áhrif hjá fyrirtækjum, en markmið laganna er að bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja.

  • Ing_38192_13776

Hagstofan birti nýlega upplýsingar um heildarútgjöld til rannsókna og þróunarstarfs á árinu 2019. Alls var varið 70,8 milljörðum króna til rannsókna og þróunarstarfs hér á landi en það jafngildir 2,35% af vergri landsframleiðslu (VLF). Er þetta hæsta hlutfall útgjalda til málaflokksins af vergri landsframleiðslu sem mælst hefur frá því að Hagstofa Íslands tók við umsjón tölfræðinnar árið 2014. Aukningin í krónum talið eru tæpir 14 milljarðar króna og er aukningin á hlut R&Þ í landsframleiðslu tæp 17%. Árið 2018 voru útgjöldin 56,9 milljarður króna (2,01%) og árið á undan 55,1 milljarðar króna (2,08%).

Meðalútgjöld ríkja Evrópusambandsins til rannsókna og þróunarstarfs eru 2,14% af vergri landsframleiðslu árið 2019, en var 2,11% árið 2018 (sjá mynd hér að neðan). Hæst var hlutfallið í Svíþjóð árið 2019 eða 3,39%, næsthæst í Austurríki (3,19%) og þar næst í Þýskalandi ( 3,17%). Ísland er á þessum lista meðal Evrópuþjóða í sjöunda sæti.

Picture1

Hagstofan aflar gagna hjá fyrirtækjum, sjálfseignastofnunum, háskólastofnunum og hjá opinberum stofnunum. Skiptast heildarútgjöldin þannig að útgjöld fyrirtækja og sjálfseignastofnana eru 48,7 milljarðar króna (1,61% af VLF), útgjöld háskólastofnana 19,9 milljarðar (0,66% af VLF) og heildarútgjöld annarra opinberra stofnana 2,3 milljarðar króna (0,07% af VLF), sjá mynd að neðan.

Picture2_1611237928141

Fyrirtæki ráðstafa árið 2019 um 69% af heildarútgjöldum til R&Þ og reynast útgjöld þeirra hafa aukist um 12 milljarða króna milli áranna 2018 og 2019. Aukning háskólastofnana eru tæpir 2 milljarðar króna frá 2018 og háskólarnir ráðstafa um 28% af heildarútgjöldum, en opinberar stofnanir (án háskóla) verja um 3% af útgjöldum. Aukning útgjalda er því langmest hjá fyrirtækjum (sjá töflu að neðan), en telja má víst að skattfrádráttur rannsókna- og þróunarverkefna hafi hér mikil áhrif. Markmið laganna er að bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja.

Picture3

Í töflunni hér að ofan má sjá að hlutur fyrirtækja hefur frá árinu 2016 hækkað frá því að vera 64% af heildarútgjöldum í 69% árið 2019 á sama tíma og hlutur háskóla lækkar frá því að vera 31% í 28%. Ef þessi hlutföll eru skoðuð meðal norrænu þjóðanna þá er hlutur fyrirtækja svipaður og hér á landi eða á bilinu 65 til 72%, nema í Noregi þar er hlutur fyrirtækja rúmlega 51%. Hlutur háskóla á Norðurlöndunum sem hluti af heildarútgjöldum er á bilinu 23 til 36%, hæst í Noregi (36%), lægst í Svíþjóð (23,3%) og Finnlandi (25,4%), en á Íslandi er hlutur háskólanna 28,1%. Umfang opinberra stofnana hefur dregist saman hlutfallslega hér á landi og er um 3% 2019. Hlutur opinberra stofnana á hinum Norðurlöndunum er svipaður og hér á landi í Svíþjóð og Danmörku, en í Finnlandi er hlutur þeirra 8,2% og í Noregi 12,6%.

Ekki liggja fyrir nýlegar upplýsingar um fjölda starfa við rannsóknir, en upplýsingar frá 2017 liggja fyrir. Þar kemur fram að 6.200 manns starfa við rannsóknir og þróun, um helmingur í fyrirtækjum, rúm 5% hjá stofnunum og um 45% í háskólum. Vonandi liggja fyrir tölur fyrir 2019 fljótlega hjá Hagstofunni.

Hallgrímur Jónasson, forstöðumaður Rannís









Þetta vefsvæði byggir á Eplica