Leikskólinn Holt hlýtur Evrópuverðlaun eTwinning
Verkefnið Read the World eða Lesum heiminn hlaut á dögunum sérstök Evrópuverðlaun sem afhent voru á fjölmennri verðlaunahátíð í Aþenu. Sigurbjört Kristjánsdóttir, deildarstjóri á Holti, tók við verðlaununum.
Verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn á árlegri ráðstefnu eTwinning sem haldin var að þessu sinni í Aþenu. Yfir 500 manns tóku þátt og 7 manna sendinefnd var viðstödd frá Íslandi.
Verðlaunin eru veitt í nokkrum flokkum fyrir bestu eTwinning verkefni álfunnar á síðasta skólaári. Lesum heiminn vann í flokknum: Verkefni sem hvetja til lesturs, í aldurshópnum 4 til 11 ára.
Leikskólinn Holt vann verkefnið í samstarfi við leikskóla og skóla á Spáni, Póllandi, Frakklandi og Slóveníu. Unnið var með söguna Greppikló eða Gruffalo á ensku og hún notuð til að vinna að ólíkum viðfangsefnum þar sem lestur og lýðræði voru tengd saman. Hugmyndin var að hvetja ung börn til að vera skapandi í hugsun og leita sér þekkingar á ýmsum sviðum, þannig að þau „læsu heiminn“. Verkefnið er gott dæmi um hvernig vinna má með hefðbundið efni, lestur, í nýstárlegu samhengi. Sigurbjört Kristjánsdóttir og Anna Sofia Wahlström eru verkefnisstjórar verkefnisins.
- Upplýsingar um sjálf verðlaunin
- Nánari upplýsingar um verkefnið í þessu fréttabréfi
- Bloggsíða verkefnisins hér