Niðurstöður gæðaúttektar á Háskólanum á Bifröst

25.9.2015

Gæðaráð íslenskra háskóla sem er skipað fimm erlendum sérfræðingum og starfar fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið á grundvelli laga um háskóla nr. 63/2006, hefur í formi skýrslu lokið viðamikilli úttekt á gæðum náms við Háskólann á Bifröst. 

  • Merki gæðaráðs

Úttektin er liður í skipulegu eftirliti Gæðaráðsins með gæðum íslenskra háskóla, með sérstakri áherslu á nemendur, námsumhverfi og prófgráður. Háskólinn á Bifröst er sjöundi, og jafnframt seinasti, háskólinn hér á landi sem gengst undir slíka gæðaúttekt í fyrstu umferð stofnanaúttekta á öllum háskólum landsins. Rannís heldur utan um starf Gæðaráðsins.

Úttektin skiptist í tvo hluta, sjálfsmat Háskólans á Bifröst annars vegar og ytra mat matshóps hins vegar. Sjálfsmatið hófst á síðasta ári og lauk með ítarlegri sjálfsmatsskýrslu ásamt aðgerðaráætlun sem miðar að því að efla enn frekar gæðastjórnun og gæðamenningu innan Háskólans. Í kjölfarið heimsótti matshópurinn, sem var skipaður fjórum erlendum sérfræðingum á sviði gæðastjórnunar í háskólum og einum nemendafulltrúa frá öðrum íslenskum háskóla, Háskólann á Bifröst í mars sl. og fundaði í þrjá daga með stjórnendum, starfsmönnum og stúdentum Háskólans, auk fulltrúum atvinnulífs og brautskráðum nemendum.

Í fyrstu umferð rammaáætlunar um gæðamál í íslenskum háskólum eru skilgreindar þrjár mögulegar niðurstöður varðandi námsumhverfi nemenda annars vegar og þær prófgráður sem skólinn veitir hins vegar: traust (e. confidence), takmarkað traust (e. limited confidence), og ekkert traust (e. no confidence), og er síðastnefnda einkunnin jafnframt skilgreint sem falleinkunn (e. failing grade).

Niðurstaða Gæðaráðsins varðandi Háskólann á Bifröst er að  að ráðið  ber traust til Háskólans á Bifröst varðandi námsumhverfi nemenda, en takmarkað traust að hluta til varðandi þær prófgráður sem skólinn veitir sem beinist að núverandi stöðu skólans en ekki að framtíðarstöðu hans.   Gæðaráðið tekur fram að bað bindi vonir við að uppfæra matið í ljósi þeirra umbóta sem áætlanir hafa verið gerðar um og hafa sumar þegar verið framkvæmdar.

Í úttektinni hrósar Gæðaráðið Háskólanum á Bifröst og nefnir  ýmsa styrkleika og góða starfshætti, s.s. öflugan starfsanda; vitund um styrkleika og veikleika í háskólastarfinu; nýjungar í kennsluaðferðum og kennslutækni; verkefnamiðaða kennslu sem einkennist af hópavinnu nemenda; tengsl milli kennslu og reynslu í atvinnulífinu, reglubundið samstarf nemenda og kennara; virka þátttöku nemenda til að hafa áhrif á stjórnun háskólans; stuðningi nemenda við hvern annan; öflugt stuðningsumhverfi á háskólasvæðinu á Bifröst; áherslu Háskólans á hvern nemanda sem einstakling; og fyrir að hafa lokið fagútttektum viðkomandi deilda með viðunandi hætti.

Gæðaráðið gerir  m.a. athugasemdir við þætti er lúta að takmarkaðri notkun á tölfræðilegum upplýsingum til að undirbyggja mat og áætlanagerð; lítilli viðleitni til að nota upplýsingar frá samanburðarháskólum; skorti á formlegri áætlanagerð; þörf á endurskoðun á stjórnsýslu Háskólans sem hefur ekki haldist í hendur við þróun hans; skorti á upplýsingum um vinnu brautskráðra nemenda; litlum tengslum á milli kennslu og rannsókna; skorti á akademísku starfsfólki með doktorsgráður; og skorti á formlegum aðferðum við ráðningu kennara og annars akademísks starfsfólks.

Samkvæmt 73. gr. um rammaáætlun um gæðamál háskóla mun Háskólinn á Bifröst leggja fram aðgerðaráætlun um viðbrögð skólans við þeim ábendingum sem fram koma í skýrslu Gæðaráðsins innan tveggja mánaða. Gott samráð er þegar hafið milli Gæðaráðs og Háskólans á Bifröst um þá umbótaáætlun og sumar aðgerðir hafa þegar verið framkvæmdar. Ráðið mun fara yfir framkvæmd áætlunarinnar, og ef hún er fullnægjandi er  unnt innan fárra mánaða að birta viðauka við skýrslu Gæðaráðsins þar sem trausti yrði lýst á prófgráður skólans (skv. 73. grein rammaáætlunar).

Drög að niðurstöðum skýrslunnar komust í fréttir fyrr á árinu. Gæðaráðið og Rannís harma þá ótímabæru umfjöllun um skýrsluna, sérstaklega þar sem starfsfólk Háskólans á Bifröst var þá bundið trúnaði um efni skýrslu og gat ekki svarað efnislega spurningum frá fjölmiðlum. Breytingar urðu á mati Gæðaráðsins eftir að athugasemdir bárust við skýrsludrögin frá Háskólanum á Bifröst og sú mynd sem dregin var upp í fjölmiðlum var ekki í samræmi við þær athugasemdir sem eru í lokaútgáfu skýrslunnar.

Nánari upplýsingar veitir:
Sigurður Óli Sigurðsson , sérfræðingur á Rannsókna- og nýsköpunarsviði hjá Rannís og stjórnandi Gæðaráðs íslenskra háskóla

Sækja skýrslu









Þetta vefsvæði byggir á Eplica