Doktorar í raunvísindum og verk- og tæknifræði ljúka námi yngri en aðrir
Á árunum 1990-2005 luku um 900 Íslendingar doktorsnámi og var meðalaldur þeirra við útskrift tæp 37 ár. Sá sem var yngstur við doktorsvörn sína á þessu tímabili var 25 ára og sá elsti 69 ára.
Tæplega fjórir af hverjum tíu doktorum voru konur og var meðalaldur þeirra tveimur árum hærri en karlanna eða rúmlega 38 ár á móti 36 árum hjá körlum. Þegar tímabilið 2000-2005 er skoðað eftir sviðum má sjá að doktorar í raunvísindum og verk-og tæknifræði voru að jafnaði yngri við útskrift en doktorar í félags-, hug og heilbrigðisvísindum (sjá mynd). Hafa ber í huga að fáir einstaklingar standa að baki meðaltölunum svo aldur hvers doktors fyrir sig getur haft nokkur áhrif á niðurstöðuna.
Á öðrum Norðurlöndum eru doktorar að jafnaði á svipuðum aldri og íslenskir doktorar þegar þeir ljúka prófi nema í Danmörku þar sem þeir eru að meðaltali mun yngri eða aðeins ríflega 34 ára (sjá http://english.nifustep.no/norbal__1/eng/startpage).